136. löggjafarþing — 122. fundur,  1. apr. 2009.

verðbætur á lán.

[15:04]
Horfa

Ármann Kr. Ólafsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Karli V. Matthíassyni fyrir að hefja umræðurnar hér. En verðtrygging er í raun breytilegir vextir og vextir þar ofan á eru þá í rauninni vaxtavextir.

Fljótt í kjölfar bankahrunsins, eða nánar tiltekið þann 16. október síðastliðinn, bar ég fram fyrirspurn til þáverandi félagsmálaráðherra og núverandi hæstv. forsætisráðherra sem fjallaði um vísitöluhækkun lána. Þar reifaði ég þá hugmynd að í ljósi aðstæðna yrði tekin upp sérstök hamfaravísitala eða verðtrygging á lán yrði reiknuð með öðrum hætti á meðan holskeflan gengi yfir. Með þessu hefði verið hægt að koma í veg fyrir skyndilega hækkun lána í kjölfar snöggrar veikingar krónunnar og þess að lánin hækkuðu gríðarlega vegna þeirrar lækkunar

Með öðrum orðum lagði ég til að byrðar á skuldara, þá sem skulda, og fjármagnseigendur, þá sem eiga fjármagn, yrðu jafnaðar. Því að við lentum jú öll í þessu og þess vegna er eðlilegt að dreifa byrðunum. Því miður sá hæstv. forsætisráðherra og þáverandi félagsmálaráðherra ekki ástæðu til að fylgja þeirri hugmynd eða tillögu minni eftir.

Í kjölfarið hefur það síðan gerst að mikil umræða hefur verið um það að leiðrétta vísitöluna vegna bankanna og þá hefur einnig verið mikil umræða um það að lækka lán eða höfuðstóla lána flatt um ákveðna prósentutölu.

Ég ætla að halda því fram, hæstv. forseti, að ef tillaga mín sem sett var fram tíu dögum eftir bankahrunið hefði gengið eftir væri staða okkar mun betri í dag og eins og ég kom inn á áðan væri staða þeirra sem skulda og þeirra sem eiga fjármagn miklu jafnari.

Að lokum vil ég segja að markmiðið hlýtur auðvitað að vera að afnema vísitölubindinguna og ýta þannig undir aukna varkárni lánveitenda og lántakenda og um leið að styrkja í raun stýrivaxtatæki Seðlabankans. En við getum samt ekki litið fram hjá því að ef við leggjum vísitöluna af, eins og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson kom inn á hér áðan, verða náttúrlega teknir upp breytilegir (Forseti hringir.) vextir og þessir breytilegu vextir munu elta vísitöluna (Forseti hringir.) því eins og ég sagði við upphaf ræðu minnar, hæstv. forseti, er vísitalan sem slík auðvitað breytileg eftir (Forseti hringir.) lánum einstakra aðila.