136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar.

259. mál
[15:17]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Eins og ég nefndi í 1. umr. málsins er ég í sjálfu sér hlynntur því að fólki sem verður fyrir tekjumissi vegna þess að það gefur líffæri sé bættur upp sá tekjumissir og annar kostnaður sem það verður fyrir. Hins vegar hafði ég nokkrar efasemdir um þá aðgreiningu milli lífsýna sem notuð eru til að þjónusta viðkomandi sjúkling og annarra lífsýna sem notuð eru til rannsókna vegna þess að það er svo erfitt að greina þarna á milli. Lífsýni sem geta verið notuð til þjónustu sjúklingsins, t.d. blóðgjafir, geta seinna meir orðið rannsóknarefni fyrir einhvern (Forseti hringir.) sem ætlar að kanna …

(Forseti (ÞBack): Forseti vill beina því til hv. þingmanns hvort hann hafi athugað að hann sé að ræða um réttan dagskrárlið. Dagskrárliðurinn er um réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar.)

Já, ég er raunar að ræða það. Ég kom inn á það að t.d. þegar menn gefa blóð hefur ekki verið greitt fyrir það á Íslandi, það er reyndar gert í öðrum löndum. Ég tel að mjög brýnt sé að viðhalda þeirri hugsun að menn fái ekki greitt fyrir slík góðverk vegna þess að ég held að þegar kominn er inn í þetta fjárhagsstuðningur litist málið af því. Hins vegar þegar um er að ræða líffæragjafir, t.d. nýrnagjöf eða eitthvað slíkt, þá verða menn sannanlega fyrir tekjutapi og það finnst mér eðlilegt að borga, þó að ég nefndi blóðgjöfina í þessu sambandi.

Þegar litið er á þetta dæmi í heild sinni, t.d. þegar maður fær nýra, þá sparar ríkið sér í rauninni mjög mikil útgjöld af því að fara í nýrnaskipti. Oft á tíðum er það þannig að svona líffæragjöf sparar ríkinu kostnað sem ella yrði umtalsverður bæði í heilbrigðisþjónustunni og annars staðar, og þess vegna held ég að þetta sé í sjálfu sér mjög jákvætt mál fyrir ríkissjóð líka og skattheimtuna, að sem mest verði um slík dæmi. Þess vegna lýsti ég yfir stuðningi við þetta mál í nefndinni þó að ég hafi bent á þetta sambærilega við blóðgjöf, að ekki sé æskilegt að borga fyrir blóðgjöfina. En hér er um að ræða greiðslu fyrir sannanleg útgjöld sem menn verða fyrir, tekjumissi og annan kostnað og ég styð málið að því leyti.