136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar.

259. mál
[18:21]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér við 3. umr. frumvarp til laga um réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar. Gildissvið þessara laga segir til um réttindi til líffæragjafa og til fjárhagslegrar tímabundinnar aðstoðar þegar þeir geta hvorki stundað vinnu né nám vegna líffæragjafar.

Er tími til kominn að það fórnfúsa fólk sem tilbúið er að gefa líffæri eða hluta úr líffæri til bjargar öðrum þurfi ekki að bera skarðan hlut frá borði fjárhagslega séð. Það er sómi fyrir hv. Alþingi að það skuli á þennan hátt koma til móts við það fórnfúsa fólk.

Samkvæmt 4. gr. er það félags- og tryggingamálaráðherra sem fer með yfirstjórn greiðslna til líffæragjafa. Félags- og tryggingamálaráðherra getur síðan ákveðið hver verður framkvæmdaraðili, hverjum hann felur framkvæmd þessara laga. Verði ekki orðið við ósk líffæragjafa um fjárhagsaðstoð vegna líffæragjafar, þegar því stigi er lokið, hefur hann, eins og lög gera ráð fyrir, kæruheimild til úrskurðarnefndar. Það er þá úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála sem tekur við kærumálum hvað líffæragjafa snertir. Það skipti hér meginmáli að við tryggjum með lögum þessum fjárhagslega, tímabundna aðstoð til þeirra sem eru tilbúnir að leggja slíkt á sig.

Það skiptir máli líka að við notum hér orðin „tímabundin, fjárhagsleg aðstoð“ og tölum ekki um greiðslur því að slíkt væri hægt að mistúlka þannig að menn teldu að hægt væri að selja líffæri og fá greiðslur fyrir. Um það er ekki að ræða í þessu frumvarpi heldur er verið að veita fólki, eins og áður hefur komið fram, tímabundna fjárhagsaðstoð vegna aðgerða sem fólk þarf að fara í. Það þarf að hverfa frá vinnu og vinnuveitendur hleypa fólki ekki alltaf í launalaust leyfi. Þá taka við þessi lög.

Það skiptir og máli, hæstv. forseti, að frumvarpið nær til námsmanna ekki síður en þeirra sem eru virkir á hinum almenna vinnumarkaði. Það skiptir líka máli að hér er tekinn af allur vafi um ósk hv. nefndar í þá veru að sá sem þiggur tímabundna fjárhagsaðstoð vegna líffæragjafar skerðir ekki réttindi sín í sjúkrasjóð stéttarfélags síns ef svo færi að einhver eftirköst yrðu vegna líffæragjafarinnar. Ég held að það skipti miklu máli.

Þar að auki vil ég benda á að í 12. gr., þar sem talað er um uppsöfnun lífeyrisréttinda og stéttarfélagsgjöld, verða menn að hafa í huga að sú grein nær ekki til þeirra sem greiða í B- og A-deild LSR. Þarf því að fara með þá aðila eins og gert er í sambærilegum málum.

Virðulegi forseti. Frumvarpið er spor í rétta átt innan heilbrigðisgeirans og innan félags- og tryggingamála. Það er skref í rétta átt að veita þeim tímabundna fjárhagsaðstoð sem tilbúnir eru að láta af hendi líffæri eða hluta úr líffæri til bjargar öðrum einstaklingum. Slíka fórnfýsi er vart hægt að meta til fjár en það gengur ekki að sá sem að slíkt gerir þurfi að bera fjárhagslegan skaða af slíku.

Þess vegna fagna ég þessu frumvarpi, hæstv. forseti, og vænti þess að hv. Alþingi ljúki því með atkvæðagreiðslu eftir 3. umr.