136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar.

259. mál
[18:42]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ég kem hér aftur upp til að ræða aðeins frekar um réttindi líffæragjafa. Eins og kom fram í fyrri ræðu minni áðan er alvarleg bilun nauðsynlegra líffæra, svo sem hjarta, lifrar, lungna og nýrna, vaxandi heilbrigðisvandamál á Vesturlöndum. Ígræðsla líffæris er þá í mörgum tilvikum besta meðferðarúrræðið sem völ er á. Í því tilviki sem við höfum rætt sérstaklega, varðandi nýrnaígræðslur, hefur verið nefnt að áhættan sem fylgir slíkri nýrnaaðgerð, líffæragjöf, nýrnagjöf, sé frekar lítil. Samt sem áður felur hún í sér töluverð óþægindi. Líffæragjafi sem er á lífi verður í flestum tilvikum óvinnufær í tengslum við líffæragjöf og þarf því að leggja tímabundið niður störf sé hann virkur þátttakandi á vinnumarkaði.

Það kemur meðal annars í greinargerð með frumvarpinu að réttur launafólks til launa í veikindaforföllum samkvæmt kjarasamningum hefur ekki verið talinn ná til þessara tilvika, enda ekki um eiginlegt sjúkdómstilfelli að ræða. Á hinn bóginn hafa líffæragjafar yfirleitt notið einstakrar velvildar vinnuveitenda sinna og margir hverjir geta gengið að launum sínum vísum í ákveðinn tíma. Umræðan hefur hins vegar verið slík að eðlilegra sé að líffæragjöfum sé tryggð tímabundin fjárhagsaðstoð með þeim hætti sem þetta frumvarp leggur til.

Þá hafa til viðbótar því sem atvinnurekendur hafa stutt við viðkomandi aðila sjúkra- og styrktarsjóðir stéttarfélaganna í einhverjum tilvikum veitt félagsmönnum sínum fjárhagslegan stuðning eða greitt dagpeninga vegna ólaunaðrar fjarveru frá vinnu í tengslum við líffæragjöf á grundvelli sérstakra heimilda enda þótt ekki sé kveðið beint á um slík tilfelli í reglum þeirra. Þeir líffæragjafar sem hafa gefið nýru á undanförnum árum hafa miklu frekar verið háðir velvild annars vegar vinnuveitanda síns og hins vegar sjúkrasjóða verkalýðsfélaga án þess að sá réttur hafi verið skilgreindur. Það veldur náttúrlega ákveðinni óvissu hjá viðkomandi aðilum.

Eins og kom fram í ræðu minni við 2. umr. þá spurði ég um þessa þætti á árinu 2007. Fyrir réttum tveimur árum sendi ég spurningar til Tryggingastofnunar ríkisins og heilbrigðisráðuneytisins um hvernig tekið væri á málefnum nýrnagjafa í tryggingakerfinu í dag, hvað rétt hann hafi, hvort einhverjar breytingar væru í farvatninu og að lokum hvort einhverjar leiðir fyndust utan tryggingakerfisins þar sem komið væri til móts við nýrnagjafa með einhverju móti.

Ég fékk þau svör frá heilbrigðisráðuneytinu og Tryggingastofnun sem annaðist sérstaklega þessi mál áður en sjúkratryggingar voru fluttar yfir til Sjúkratrygginga Íslands, að það kemur fram í lögum um almannatryggingar og reglugerðum settum samkvæmt þeim að ekki er að finna neinar sérreglur um líffæragjafa og því gilda almennar reglur um þá sem verða óvinnufærir af þessum sökum.

Eins og ég sagði áðan hafa líffæragjafar sótt um sjúkradagpeninga samkvæmt 38. gr. laga um almannatryggingar og fallist hefur verið á greiðslu sjúkradagpeninga í slíkum tilvikum að öðrum skilyrðum uppfylltum, til dæmis þeim að viðkomandi sé sjúkratryggður á Íslandi, verði algjörlega óvinnufær og launatekjur falli niður. Öllum má þó vera ljóst að sjúkradagpeningar frá almannatryggingakerfinu eru fremur rýrar.

Frá þessum tíma, frá árinu 2007, hefur umræðan farið í þennan farveg og nú sjáum við fram á ákveðna réttarbót hjá líffæragjöfum. Þeir falla núna inn í kerfið og eru þá ekki lengur háðir velvild vinnuveitenda eða sjúkrasjóða eða háðir því að sækja um sjúkradagpeninga sem eru, eins og við þekkjum, fremur lélegir innan almannatryggingakerfisins.

Við sem stöndum hér hljótum því að fagna því að þetta mál er komið í höfn. Um leið hljótum við líka að fagna því að ákveðin umræða um líffæragjafir fari fram í framhaldi af því og hvaða reglu- og lagarammi er utan um slíkt.