136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

réttindi lifandi líffæragjafa til tímabundinnar fjárhagsaðstoðar.

259. mál
[18:47]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Í fyrri ræðu minni gleymdi ég nokkrum atriðum sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson minnti mig á og það eru sjúkrasjóðirnir. En fyrst vil ég tala um þá fórnfýsi að gefa líffæri — ég hef ekki viljað að greitt sé fyrir það, ekki frekar en fyrir blóðgjafir og annað slíkt. Ég vil nefnilega að þetta sé fórnfúst. Það hefur líka komið fram að atvinnulífið á Íslandi er miklu samfélagslegra sinnað en af er látið og maður veit dæmi þess að atvinnurekendur hafa greitt mönnum laun þó að þeir eigi kannski ekki rétt á því samkvæmt kjarasamningi þegar þeir gefa líffæri.

Ég vildi tala um sjúkrasjóðina. Í kjölfar þeirrar kreppu sem skall á í haust þurfa menn að taka á þeim og samræma reglurnar sem þeir vinna eftir og sérstaklega þarf að setja um þá lög þannig að þeir komi af fullu afli inn í velferðarkerfið eins og þeim er ætlað. Það eru lög frá Alþingi sem kveða á um að greitt skuli í þessa sjóði. Um leið og Alþingi setur slík lög, um að greitt sé í einhverja sjóði, verður það að segja hvað gera eigi við peningana, það er lágmark.

Nú vita menn eingöngu að þetta er sjúkra-eitthvað. Reglur sjóðanna eru mjög mismunandi, það er mjög á reiki hvað þeir eiga að greiða og getan til að greiða er líka mjög mismunandi. Ég tel því mjög brýnt að setja um þetta lög og samræma það á hvern hátt þeir koma inn í velferðarkerfið.

Þessu vildi ég koma að, herra forseti, af því að ég gleymdi því í fyrri ræðu minni.