136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[20:30]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Það er alveg laukrétt hjá hv. þm. Ólöfu Nordal að við sjálfstæðismenn styðjum þetta mál og viljum að það nái framgangi. Ég segi að það er sérstök ástæða til að fagna því frumvarpi sem hér liggur fyrir um hækkun á endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar úr 14% í 20%. Ég ætla ekki að lengja umræðuna en ég tel rétt að fara nokkrum orðum um kvikmyndagerð og kvikmyndaiðnaðinn á Íslandi sem er einn af þeim sprotum sem geta orðið mikilvægir í þeirri atvinnuuppbyggingu sem fram undan er. Við verðum að horfa til nýrra átta og þarna er mikilvægt tækifæri. Ef rétt er á málum haldið ætti að geta skapast umtalsverður fjöldi starfa í kvikmynda- og sjónvarpsiðnaðinum og þessi lagabreyting er einn liður í að stuðla að þeirri uppbyggingu.

Þau lög sem hér eru til umfjöllunar og breyting á þeim voru upphaflega sett í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og þau hafa haft veruleg áhrif, bæði til eflingar á innlendri kvikmyndagerð en einnig í uppbyggingu þjónustuiðnaðar við erlend kvikmyndafyrirtæki. Það er það mikilvæga í þessu að erlend kvikmyndafyrirtæki hafa komið hingað til að taka upp kvikmyndir og ég vil nefna sama verkefni og hv. þm. Björk Guðjónsdóttir nefndi. Eitt mjög eftirminnilegt verkefni var þegar Clint Eastwood kom hingað með mikið lið til þess að taka upp mynd sína Flags of Our Fathers fyrir nokkrum árum. Ég vil einnig nefna að á mínum heimaslóðum var tekin upp kvikmyndin Kaldaljós. Þegar verið var að taka hana upp heima á Seyðisfirði hafði það mjög mikil áhrif á bæjarlífið og var atvinnuskapandi í bæjarfélaginu. Það er einmitt þannig með þessi verkefni, oft og tíðum eru þetta verkefni sem eru unnin úti á landsbyggðinni og hafa atvinnuskapandi áhrif þar. Við skulum ekki vanmeta það hversu mikil byggðarleg áhrif slík verkefni hafa.

Það er ljóst að á undanförnum árum hefur skapast umtalsverð þekking í landinu á þjónustu við þessi erlendu kvikmyndafyrirtæki og íslenskir kvikmyndagerðarmenn hafa náð mjög góðum árangri í þjónustu, vil ég segja, við mjög kröfuharða viðskiptavini sem eru þessi erlendu kvikmyndafyrirtæki. Samkeppnin er hörð um þessi verkefni og því er mjög mikilvægt að Ísland geti verið samkeppnisfært og því er sú breyting sem hér um ræðir mjög mikilvæg.

Við teljum hins vegar einnig mjög mikilvægt að uppbygging kvikmyndaiðnaðarins sé skoðuð í heild sinni. Kvikmyndagerð og kvikmyndamenning á Íslandi hefur þróast með mjög sérstökum hætti. Það má skipta þeirri sérstöðu upp í fimm þætti.

Í fyrsta lagi skal nefna að hér hefur alla tíð verið mjög sterk kvikmyndahúsamenning. Allt frá því að fyrsta kvikmyndahúsið var stofnsett hér á landi, 1906, hafa Íslendingar sótt meira í bíó en aðrar Evrópuþjóðir. Þar höfum við góðan samanburð. Bíóin hafa þannig verið mikilvægur félagslegur þáttur í íslenskri menningu og eru það enn í dag þótt sérstaðan sé ekki eins afgerandi og áður þar sem fleiri þættir hafa komið við sögu í afþreyingu landans.

Í öðru lagi má nefna að við vorum töluvert á eftir öðrum Evrópuþjóðum að setja á stofn íslenskt sjónvarp. Ríkissjónvarpið var stofnað 1966 og Stöð 2 1986. Meginhlutverk sjónvarpsstöðvanna hefur alla tíð verið að endurvarpa erlendu efni og viðamikil innlend dagskrárgerð hefur alla tíð verið í miklum minni hluta. Sterkar vísbendingar um breytingar í þeim efnum hafa komið fram síðustu tvo vetur þar sem leiknar sjónvarpsseríur hafa náð miklum vinsældum. Það er mjög ánægjulegt að sjá að nú hefur jafnvel verið talað um að íslenska sjónvarpsvorið væri hafið.

Í þriðja lagi má nefna að Íslendingar voru langt á eftir flestum þjóðum heims að hefja reglubundna framleiðslu leikinna bíómynda í fullri lengd. Það var ekki fyrr en með lögunum um Kvikmyndasjóð 1978 að reglubundin framleiðsla hófst.

Í fjórða lagi vil ég nefna að þrátt fyrir nokkuð stutta og veika sögu hefur þróast upp nokkuð harðskeyttur og hugmyndaríkur hópur kvikmyndagerðarmanna sem hefur náð að halda uppi háu framleiðslustigi á bíómyndum, heimildamyndum og auglýsingum sem líka skipta miklu máli í þessu samhengi. Gæði þessarar framleiðslu er í mörgum tilvikum fyllilega sambærileg við það sem gerist best erlendis.

Í fimmta lagi má nefna að hér hefur þróast upp nokkuð öflugur þjónustuiðnaður við erlend kvikmyndafyrirtæki sem til landsins koma til þess að mynda. Þá hafa verið stofnuð hér framsækin nýsköpunarfyrirtæki í myndmiðlaiðnaðinum sem sótt hafa fram á erlendum vettvangi. Þar ber fyrst og fremst að nefna Latabæ og CCP.

Hæstv. forseti. Styrkleikar Íslendinga liggja í því að hafa haft aðgang að því vinsælasta sem þekkist í bíóhúsum og sjónvarpi á hverjum tíma. Þeir liggja einnig í því að vinnukarakterinn virðist henta þessari starfsgrein, þ.e. vinnukarakter okkar Íslendinga, við erum tarnafólk, við höfum mikla sköpunarhæfileika og einnig töluvert viðskiptavit. Þetta passar allt ágætlega saman inn í þessa flóru. Veikleikarnir liggja í stuttri sögu og mjög veikri innlendri sjónvarpsdagskrárgerð. Þeir liggja einnig í því að formlegt umhverfi greinarinnar er mjög ómótað. Þar megum við taka okkur á. Fagfélög greinarinnar hafa t.d. óljósa stöðu og óljóst hlutverk.

Almennt má segja að þótt við státum ekki af hundrað ára sögu og rótgrónum iðnaði, eins og t.d. Danir og Svíar, höfum við byggt upp öflugan grunn. Stjórnvöld hafa einnig aukið stuðning sinn verulega við greinina og er þar bæði átt við aukningu í fjárframlögum til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og endurgreiðslukerfi iðnaðarráðuneytisins sem er hér til umfjöllunar. Iðnaðurinn stendur þó enn á brauðfótum og vöxtur greinarinnar hefur verið mjög hægur undanfarin ár. En sé litið til framtíðar eru möguleikar til uppbyggingar mjög margir. Sé miðlaiðnaðurinn í heiminum skoðaður í heild sinni, þ.e. sjónvarpsframleiðsla, framleiðsla á netinu, tölvuleikirnir og bíómyndirnar, þá er um gífurlegan vöxt að ræða og virðist þar ekkert lát ætla að verða á. Sjónvarpsstöðvarnar víðast hvar í heiminum hafa til að mynda mætt samkeppni frá netinu með stóraukinni framleiðslu. Þróunin virðist vera í þá átt að auka gæði og styrkja dreifinguna.

Hæstv. forseti. Það eru tvenns konar skyldur sem þetta leggur á íslenska kvikmyndagerðarmenn. Annars vegar er það að ná enn betri árangri í innlendri framleiðslu með aukningu á magni og gæðum í samkeppni við erlent efni og hins vegar að hasla sér völl á erlendum vettvangi. Í raun er ekkert því til fyrirstöðu að við framleiðum efni fyrir erlenda markaði og segja má að Latibær hafi sýnt okkur það og sannað að þar getum við átt verulega mikið erindi.

Við verðum því að horfa heildstætt yfir sviðið ef við ætlum að stuðla að uppbyggingu, hæstv. forseti. Það er algjörlega nauðsynlegt að við tökum þetta svið, þ.e. kvikmyndaiðnaðinn og kvikmyndagerð á Íslandi, og mótum nýja stefnu. Ég vil nefna hér að það er mjög mikilvægt að styðja við bakið á Kvikmyndaskóla Íslands sem hefur gegnt mikilvægu starfi í menntun kvikmyndagerðarmanna mörg undanfarin ár. Það er mjög mikilvægt að þeir fjármunir sem renna til sjónvarpsins og RÚV séu nýttir sem best til uppbyggingar greinarinnar. Allt verður þetta að spila saman. Það er einnig mjög mikilvægt að hugað sé að samkeppnisstöðu einkasjónvarpsstöðvanna þannig að þær geti stundað öfluga innlenda dagskrárgerð og þannig má áfram telja. Við munum umræðuna sem hér fór fram fyrir áramótin um framtíð Skjás eins og við vitum í sjálfu sér ekki hvort það fyrirtæki er endanlega komið fyrir vind. Að minnsta kosti er það ánægjuefni að það fyrirtæki skuli enn þá vera starfandi.

Hæstv. forseti. Fleira mætti telja upp en aðalatriðið er hins vegar að ef rétt er á málum haldið getur íslensk kvikmyndagerð orðið mjög mikilvæg atvinnugrein. Þess vegna er þetta mjög mikilvægt skref sem stigið er í frumvarpinu og eins og fram hefur komið erum við Sjálfstæðismenn einhuga um að styðja það.

Ég vil enn og aftur minna á mikilvægi Kvikmyndaskóla Íslands en það er skóli sem starfar á framhaldsskólastigi og býður upp á skapandi starfsmenntanám sem er mjög mikilvægt. Hér hefur einnig verið minnst á stöðu Listaháskóla Íslands sem hefur útskrifað einstaklinga sem starfa í greininni. Kvikmyndaskóli Íslands er sjálfstæður sérskóli sem í raun starfar í samkeppni við erlenda skóla. Það er skóli sem sækir fyrirmyndir sínar víða að og starfar á mörgum sviðum. Hann sækir hugmyndir frá t.d. margmiðlunarskólum, rithöfundaskólum og leiklistarskólum og samtvinnar þetta í mjög skemmtilega námskrá sem hefur nýst íslenskum nemendum ákaflega vel. Það er gífurlega mikil aðsókn í Kvikmyndaskólann sem sýnir auðvitað að íslensk ungmenni hafa mikinn áhuga á að hasla sér völl á þessu sviði. Það er ekki síst áhugavert að fylgjast með því ef við höfum þá stefnu að við ætlum að styðja við íslenska kvikmyndagerð og íslenskan kvikmyndaiðnað til framtíðar og líta til þess að þarna eru miklir vaxtamöguleikar og mörg störf sem hægt væri að skapa ef heildarumhverfi greinarinnar er með þeim hætti að hún fær notið sín. Eins og ég nefndi hafa nemendur sem komið hafa komið úr Kvikmyndaskólanum haft mjög mikil áhrif, og ég veit til þess að þeir fá stundum ekki að ljúka námi sínu við skólann af því að það er svo mikil eftirspurn eftir þeim bæði til innlendra og erlendra kvikmyndaverkefna. Þessir nemendur hafa því haft mikil og góð áhrif á það að mögulegt er að flytja inn verkefni og við getum horft til þess að greinin geti vaxið áfram.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að lengja umræðuna en vildi einungis koma hér til að nefna það hversu mikil áhrif þessi atvinnugrein hefur hér á landi.