136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[20:45]
Horfa

Herdís Þórðardóttir (S):

Frú forseti. Hér er til 3. umr. frumvarp til laga um breyting á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, lögum frá 1999. Sú breyting sem frumvarpið felur í sér er að endurgreiðsluhlutfallið hækki úr 14% í 20%, sem kemur fram í frumvarpinu. Með því er verið að jafna samkeppnisstöðu íslensks kvikmyndaiðnaðar og er þá horft til sambærilegrar starfsemi í öðrum ríkjum og ekki síst í öðrum Evrópuríkjum eins og kom fram í máli þeirra sem hér hafa talað á undan mér. Á Írlandi er endurgreiðsluhlutfallið t.d. um 28%.

Síðast var þessum lögum breytt árið 2006. Þá var endurgreiðsluhlutfall laganna hækkað úr 12% í 14%. Þá var haldið að sú breyting yrði til þess að laða að fleiri erlend kvikmyndaverkefni. En sú hækkun náði ekki tilætluðum árangri. Erlendum verkefnum í kvikmyndagreininni hefur ekki fjölgað frá því að sú breyting tók gildi. Margir telja að það sé mjög eftirsóknarvert og skjóti styrkari stoðum undir kvikmyndaiðnaðinn og í leiðinni efli þá möguleika sem skapa tekjur fyrir þjóðarbúið.

Hér á landi hefur skapast mikil þekking í kvikmyndagerð og sömuleiðis á allri þeirri þjónustu er henni fylgir. Kvikmyndaframleiðsla er áhættusöm grein. Gríðarleg gróska hefur verið í kvikmyndaiðnaði hér á undanförnum árum bæði hvað varðar gerð kvikmynda og auglýsinga og svo vegna þáttagerðar. Við vitum að á Íslandi er mikil þekking sem okkur ber að virkja og þá í leiðinni að hvetja erlenda aðila til að koma með fleiri verkefni hingað til lands. Vonandi hefur sú breyting að hækka endurgreiðsluhlutfall úr 14% í 20% það í för með sér að hér skapist fleiri störf. Þá á ég við kvikmyndaauglýsingar, þáttagerð og annað.

Ég get tekið undir að verkefni af þessum toga eru mjög atvinnuskapandi. Þar af leiðandi skapast mörg afleidd störf. Ef frumvarpið verður að lögum er gert ráð fyrir því að það skapi atvinnu fyrir fjölda fólks. Við sjálfstæðismenn höfum tekið þá afstöðu að styðja öll góð verkefni sem ríkisstjórnin hefur á prjónunum og ætlar að koma fram og við teljum að með þessu sé verið að skapa atvinnu fyrir fólk í þessum iðnaði og það verði þá hvetjandi fyrir þá erlendu kvikmyndaframleiðendur sem ætla sér að koma hingað til Íslands. Við erum náttúrlega mjög stolt af því hvað við eigum hreint og ósnortið land sem við höfum verið öfunduð af úti um allan heim. Ég tel að það séu forréttindi að fá að búa hér á Íslandi. Það eru forréttindi hvað við eigum hreint og ósnortið land og þess vegna er upplagt fyrir okkur og fyrir þá sem starfa í kvikmyndaiðnaði að laða hingað til lands erlenda aðila til þess að kynna landið okkar og í leiðinni að skapa störf.

Frú forseti. Ég tel að það séu góðar fréttir fyrir kvikmyndaiðnaðinn á Íslandi ef þetta frumvarp nær fram að ganga og í leiðinni á það að leiða til þess að atvinnuástandið verði betra hér á landi. Við, hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins í iðnaðarnefnd, Kristján Þór Júlíusson og Björk Guðjónsdóttir, höfum verið með fyrirvara á þessu máli. Það hefur komið fram. Hv. þm. Björk Guðjónsdóttir er búin að gera grein fyrir því. En með þeim fyrirvara töldum við að þetta yrði íþyngjandi fyrir ríkið og kostnaðarsamt nú í öllum þeim niðurskurði sem á sér stað í íslensku þjóðfélagi. Við þurfum að skera niður á ótal sviðum og þess vegna ákváðum við að vera með fyrirvara í þessu máli. En þegar betur var að gáð sáum við hvaða atvinnuskapandi tækifæri þetta væru, þegar við horfum til annarra landa, þegar við horfum yfir til Írlands, horfum yfir til Noregs og sjáum hvað þessi lönd eru að gera eins og kom fram áðan í máli hv. þm. Ólafar Nordal þegar hún talaði um Nýja-Sjáland. Ég tel þrátt fyrir þennan fyrirvara að til lengri tíma litið þá verði þetta til góðs fyrir íslenskan kvikmyndaiðnað. Ekki ætlum við sjálfstæðismenn að standa í vegi fyrir atvinnuskapandi verkefnum. Það er svo langt frá því. Það eru náttúrlega mikil einstaklingsbundin verkefni líka í þessu. Þetta skapar afleidd störf og er landkynning. Þetta verður mjög góð landkynning fyrir okkur. Eins og hefur komið fram hafa margir bílaframleiðendur mikinn áhuga á því að taka auglýsingamyndbönd hér á landi. Tískufyrirtæki hafa verið hér með fegurðardrottningar og annað og myndað hér og við skulum ekki gleyma því þegar James Bond myndin var tekin upp fyrir austan og sýndi Vatnajökul og allt það fallega landsvæði sem við eigum þar ósnortið þegar James Bond brunaði þar um á íshellunum.

Þess vegna vil ég enn og aftur segja að sjálfstæðismenn standa ekki í vegi fyrir að góð mál nái fram að ganga á Alþingi. Við höfum hvatt til þess að ríkisstjórnin komi fram með atvinnuskapandi fyrirtæki og atvinnuskapandi stefnu sem liðki til fyrir þau fyrirtæki sem nú þegar starfa í landinu. Við teljum að til lengri tíma litið verði þetta mjög gott mál fyrir kvikmyndaframleiðslu hér á landi og alla þá sem starfa við þessa atvinnugrein.

Ég segi enn og aftur að við teljum þetta gott mál og við í iðnaðarnefnd styðjum það og vonum að það nái fram að ganga og verði að lögum.