136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[22:31]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get tekið undir með hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni að auðvitað væri miklu meiri bragur á því ef hæstv. fjármálaráðherra og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson eyddu tímanum sem þingið hefur í að ræða brýn viðfangsefni heimila og fyrirtækja í landinu og létu þá svo lítið að taka þátt í umræðum um mál hér í þinginu í stað þess að standa hálfflissandi í hliðarsölum og stunda frammíköll gagnvart okkur, þingmönnum Sjálfstæðisflokksins, sem erum að reyna að ræða þessi mál efnislega. Það væri auðvitað það sem hæstv. fjármálaráðherra lagði til umræðunnar áðan og sömuleiðis formaður þingflokks Samfylkingarinnar. Slíkur málflutningur er auðvitað ekki til þess fallinn að leggja neitt til málsins.

Ég get tekið undir með hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni að lántökur vegna þessa máls eru að sjálfsögðu vafasamar. Hv. þm. Björk Jakobsdóttir sem tók þátt í vinnslu þessa máls lýsti því hér í umræðunni að þeir fyrirvarar sem sjálfstæðismenn hefðu gert hefðu lotið að því máli. Ég held að þeir fyrirvarar hafi verið eðlilegir og skýrðir út í nefndaráliti. Ef í ljós kemur að þessir þættir málsins hafi ekkert breyst verð ég að bregða mér til hliðar með hv. þingmanni, (Forseti hringir.) fá mér kaffi með honum og athuga hvort (Forseti hringir.) afstaða mín til málsins vegna þessa kunni hugsanlega að breytast.