136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[22:34]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég leiðrétta hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson, Björk er Guðjónsdóttir og aukinheldur er hún frænka þess sem hér stendur, ættuð úr Svarfaðardal. Það ber að hafa í huga þegar menn ræða alvarlega hluti sem þessa.

Heldur þykir mér þunnur þrettándinn þegar menn reyna að skauta yfir það að það sé gott mál að byggja upp atvinnu í landinu, eins og þetta mál gerir ráð fyrir, en á þeim grunni að við tökum þá lán út á ríkissjóðinn til að halda úti þeirri atvinnu. Það er nokkuð sem ég get ekki fellt mig við og hef ekki sæst á þær röksemdir sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson lagði hér fram til stuðnings máli sínu. Ég tek því að sjálfsögðu fagnandi að fá tækifæri til að eiga við hann skoðanaskipti um málið utan ræðupúlts og skal upplýsa hann nákvæmlega um afstöðu mína varðandi það atriði sem ég hef mótmælt hér fyrr í dag og fyrr í kvöld.

Ég hvet hann til að halda áfram andróðri sínum, eða ég vil kannski fremur kalla það hvatningu til forustumanna ríkisstjórnarinnar um að þeir ágætu einstaklingar fari að leggja gott til málanna og taki þátt í þessari gríðarlega mikilvægu umræðu sem við eigum og höfum átt um þetta mál, sem ég skal viðurkenna að er mikilsvert, að þeir komi til þeirrar umræðu sem boðið er upp á.

Því miður sjást þess lítil merki og af því að hér rak inn nefið áðan hv. þm. Jón Bjarnason, varaformaður fjárlaganefndar, hefði verið gott að eiga tækifæri á orðastað við hann um þetta gagnmerka efni.