136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[22:59]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breyting á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, nr. 43/1999, með síðari breytingum. Það eru tíu ár síðan þessi lagasetning sem við erum nú að breyta var fyrst sett og þess vegna er sérstakt tilefni til að fara aðeins yfir aðdraganda laganna, hver hvatinn að lagasetningunni var og hvernig til hefur tekist, ekki síst í ljósi þess að hér er lagt til að endurgreiðslurnar verði hækkaðar.

Tilgangurinn með lagasetningunni á sínum tíma var að setja á fót sérstakt hvatakerfi til eflingar kvikmyndaiðnaði á Íslandi. Tilgangurinn með kerfinu var að endurgreiða ákveðið hlutfall framleiðslukostnaðar sem félli til vegna kvikmyndagerðar hér á landi þegar verkinu lyki. Upphaflega var lagt upp með að þetta væri tímabundin ráðstöfun og það varð raunar svo en hún var framlengd árið 2006 og við búum enn við þetta kerfi. En það sem menn höfðu í huga og hafa enn í huga er að við lýði sé einfalt og gagnsætt kerfi sem þjóni innlendum og erlendum kvikmyndaframleiðendum, hvetji til uppbyggingar greinarinnar í nútíð og framtíð og efli innlenda kvikmyndagerð og laði um leið erlend fyrirtæki til að koma og gera kvikmyndir sínar hér á landi.

Það regluverk sem var sett upp með lögunum frá 1999 hafði það að leiðarljósi að aðgerðirnar ykju áhuga erlendra kvikmyndafyrirtækja á starfsemi hérlendis og að aukin útgjöld ríkissjóðs mundu í raun dekkast af þeim auknu tekjum sem fylgdu þessari auknu starfsemi. Að reglurnar væru einfaldar og gagnsæjar og fyllsta jafnræðis yrði gætt gagnvart þeim sem fengju þennan stuðning. Aðgerðirnar væru tímabundnar en þó nægilega lengi í gildi til að hafa áhrif á greinina varðandi fjárfestingar og náttúrlega síðast en ekki síst að þær efldu innlendan kvikmyndaiðnað.

Megintilgangurinn var auðvitað númer eitt, tvö og þrjú að efla innlenda kvikmyndagerð með því að gera íslenskum kvikmyndagerðarmönnum kleift að auka þekkingu sína, m.a. í samstarfi við erlenda starfsbræður og með því að laða hingað erlenda kvikmyndagerðarmenn fengju íslenskir kvikmyndagerðarmenn og fagfólk á þessu sviði ómetanlega viðbótarþekkingu við þá góðu þekkingu sem þeir höfðu fyrir.

Allt þetta gekk eftir og eins og áður var sagt voru þessi lög nr. 43/1999 sett og áttu að gilda til ársloka 2006. Raunar frestaðist nú aðeins gildistaka þeirra vegna athugasemda frá Eftirlitsstofnun EFTA. Við þurftum aðeins að fínpússa lagagerðina. Engu að síður hafa þessar endurgreiðslureglur verið í gildi frá árinu 2001.

Þegar reglurnar áttu að renna úr í árslok 2006 var málið skoðað á ný í iðnaðarráðuneytinu og m.a. gerð mjög merk athugun á því hvaða reynsla væri af lögunum og hvaða áhrif þau hefðu haft, sem var auðvitað mjög mikilvægt að vita vegna framhalds málsins.

Hagfræðistofnun Háskóla Íslands fékk það verkefni að skoða áhrif laganna og niðurstaðan varð sú, sem er auðvitað það athyglisverða, að nettókostnaður ríkissjóðs hefði sennilega verið enginn. Því þegar horft var til þess hversu atvinnuskapandi þessi nýju verkefni, sem hingað komu og hefðu ella ekki farið af stað, voru þá voru nettóáhrifin sem sé enginn kostnaður fyrir ríkissjóð.

Við endurskoðunina 2006 var ákveðið að hækka endurgreiðsluhlutfallið úr 12% upp í 14%. Það var talið nauðsynlegt til að hvetja enn frekar til verkefna af þessu tagi hér á landi. En eins og fram kemur í því frumvarpi sem við ræðum virðist sú hækkun ekki hafa laðað erlend verkefni hingað, því þeim fjölgaði ekkert og hefur ekkert fjölgað frá því að sú hækkun tók gildi um áramótin 2006/2007.

Hins vegar sýnir tafla í greinargerðinni að talsverðar endurgreiðslur voru á síðasta ári en þær skýrast fyrst og fremst af mikilli grósku í innlendri kvikmyndagerð og væntanlega er sú gróska að einhverju leyti líka afleiðing af því góða samstarfi sem hér hefur komist á milli innlendra og erlendra kvikmyndagerðarmanna í tengslum við önnur og fyrri verkefni sem hingað hafa komið.

Það sem lagt er til með því frumvarpi sem við ræðum hér er að hækka aftur endurgreiðsluhlutfallið og taka nú talsvert stærra skref, fara úr 14% upp í 20%. Aftur er tilgangurinn sá að jafna samkeppnisstöðu íslensks kvikmyndaiðnaðar gagnvart sambærilegri starfsemi í öðrum ríkjum og laða enn frekari erlend verkefni hingað. Staðreyndin er nefnilega sú að við erum auðvitað ekkert ein um það í heiminum að hafa séð að með stuðningi af þessu tagi komi kvikmyndagerðarverkefni til landsins.

Eins og ítarlega er rakið í greinargerð með frumvarpinu er mikil samkeppni milli landa og meira að segja á milli fylkja í sumum löndum. Ástæðan er augljós og þeir sem á undan mér hafa talað hafa farið yfir það. Stór kvikmyndagerðarverkefni kalla á mikinn fjölda starfsmanna, bæði innlendra og svo þeirra sem koma á vegum erlendra framleiðenda, ef um erlenda framleiðendur er að ræða. Síðan eru það öll hliðaráhrifin sem af þessu skapast. Ferðamannaiðnaðurinn nýtur góðs af, því þegar kvikmyndir eru teknar hér á landi er auðvitað sýnd jákvæð og góð mynd af okkar fallega landi, sem getur orðið til þess að ferðamenn hafi meiri áhuga á að koma hingað en áður. Ferðamannaiðnaðurinn er iðnaður sem er mikill vaxtarbroddur hjá okkur og við eigum þar talsverð sóknarfæri og með verkefnum af þessu tagi er enn byggt undir hann.

Varðandi þessar endurgreiðslur og út af þessu frumvarpi núna var aftur gerð úttekt á áhrifunum á því tímabili sem endurgreiðslurnar hafa verið við lýði. Nú var það stofnun sem kölluð er Fjárfestingarstofa sem sá um úttektina og hún komst að sömu niðurstöðu og Hagfræðistofnun hafði komist að árið 2006 að þegar upp væri staðið væri endanlegur kostnaður ríkissjóðs enginn, vegna þess að skatttekjur ríkissjóðs vegna þeirra hliðaráhrifa sem af þessu væru væru meiri en endurgreiðslurnar sem lögin tiltaka.

Þannig að þetta er auðvitað mjög mikilvægt og raunar er ekki bara um skatttekjur að ræða heldur er líka alls konar gjöld og virðisaukaskattur sem kemur á aðföng og slíkt.

Þess vegna er svo mikilvægt að hækka þessa prósentu af því að samanburður milli landa á endurgreiðslum sýnir að núverandi endurgreiðsluprósenta okkar, 14%, er í lægri kantinum og jafnvel þó að við förum upp í 20% erum við ekki að yfirbjóða þau lönd sem best gera og það er auðvitað eitt af því sem við þurfum kannski að skoða.

Þótt við teljum að Ísland sé fallegasta land í heimi og hér sé allt stórkostlegast og frábærast og að engin náttúra slái íslenskri náttúru við þá er það nú engu að síður svo að önnur lönd í heiminum bjóða upp á svipaðar aðstæður og finnast hér á landi. Í fjölmörgum löndum í heiminum eru snjór og jöklar og víðlendi og víðátta án þess að augað sé truflað af mannvirkjum og sum þeirra landa sem bjóða upp á slík náttúrugæði eru með ívilnanakerfi eins og það sem við ræðum hér og jafnvel betri ívilnanakerfi. Þess vegna hljótum við í framhaldinu að þurfa jafnvel að skoða hvort taka þurfi enn eitt viðbótarskrefið á þessu sviði og miðað við þær úttektir sem gerðar hafa verið virðist slíkt ekki vera mjög hættulegt í ljósi þess að nettóáhrifin eru ekki kostnaður fyrir ríkissjóð heldur kemur ríkissjóður út á sléttu ef svo má að orði komast.

Forseti. Þetta mál hlýtur að teljast eitt af þeim atvinnuskapandi málum sem ríkisstjórnin, minnihlutastjórn Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, hefur lofað að beita sér fyrir. Auðvitað væri betra og æskilegra að fyrir þinginu væru heildstæðar aðgerðir þar sem atvinnuskapandi verkefni væru kynnt heildstætt en ekki í einhverjum pörtum og bútum. Það verður auðvitað tilefni til sérstakrar umræðu að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin hefur lofað fyrirtækjum og heimilum í landinu láta svo sannarlega eftir sér bíða og er þó orðið stutt í kosningar.

En kannski má ekki vanþakka það litla sem ríkisstjórnin gerir þó á þessu sviði og þetta mál er eitt af því og þess vegna styðja sjálfstæðismenn það, því við höfum sagt að öll mál sem styrkja atvinnulífið og skjóta styrkari stoðum undir það séu studd af okkar flokki. En vissulega bíðum við enn eftir því að sjá með hvaða hætti ríkisstjórnin ætlar að skapa 18.000 störf fyrir þá sem nú eru atvinnulausir.

En þetta mál, virðulegi forseti, er þó jákvætt. Þetta er smáviðleitni þótt hún mætti vera meiri og þess vegna ber að fagna henni og þess vegna munum við greiða atkvæði með þessu máli og veita því framgang.