136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[23:14]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S):

Herra forseti. Þegar tími minn var á þrotum í fyrri ræðu átti ég nokkur atriði eftir sem ég vildi nefna í þessu samhengi. Það má segja að það sé dálítið merkilegt hvað EFTA, EES og Evrópusambandið og reyndar fleiri þjóðir leggja mikið upp úr þessum aðgerðum hvað þennan málaflokk og atvinnugrein varðar. Þau eru með um þetta viðamiklar reglur um hvað má og hvað má ekki. Að sumu leyti finnst mér það ansi rúmt ef mið er tekið af öðrum þáttum, en það merkilega er auðvitað hvað (Gripið fram í.) það er mikil samkeppni í þessu innan þess þó víða ramma sem þar er leyfður. Það er þó nokkur munur á ríkjum og jafnvel má segja að ríki utan EES-svæðisins eða utan EFTA og ESB séu með jafnvel enn þá meiri möguleika til að styrkja og ívilna en á EES-svæðinu og geri þar af leiðandi enn þá meira til að taka þátt í samkeppninni og draga til sín þessa starfsemi.

Ýmis lönd voru nefnd og sérstaklega vekur athygli að það er nefndur munur á fylkjum í Bandaríkjunum. Ég heyrði í fréttum í dag þar sem fjallað var um skattaskjól og vilja forustumanna G20-hópsins, a.m.k. sumra þeirra, til að ganga mjög hart til verks þar að þar var talað um að jafnvel tiltekin fylki í Bandaríkjunum teldust vera skattaskjól. Það var m.a. vitnað í forsætisráðherra Lúxemborgar sem héldi þessu fram og hann hélt því fram vegna þess að uppi voru ásakanir um að Lúxemborg, Austurríki og Belgía, lönd sem sérstakar reglur giltu um hvað varðar vexti og vaxtaafdrátt vegna vaxtagreiðslna, væru í rauninni skattaskjól líka. Þá velti ég fyrir mér þeirri umræðu sem hér hefur verið um skattaskjól hvort þetta regluverk og þetta kerfi sem búið hefur verið til leiði til þess að ríkin sem lengst ganga í þessum efnum séu raunverulega einhvers konar skattaskjól fyrir þessa starfsemi.

Við erum, eins og kom fram hjá síðasta hv. ræðumanni í dag, með tiltölulega lágt hlutfall sem má endurgreiða, meira að segja lægra en Noregur og eru Norðmenn ekkert sérstaklega áfjáðir í svona hluti, að ég hélt. Þegar farið er upp í endurgreiðsluhlutfall yfir 50% og jafnvel upp í 55% eins og í sumum fylkjum Bandaríkjanna velti ég því fyrir mér hvort þetta sé orðið sambærilegt. Þá velti ég líka fyrir mér hvað með þessa ríkisstjórn sem vill ganga mjög hart fram í sumum þessum hlutum, að hún skuli leggja þetta til þar sem við förum þá kannski í samkeppni um hluti sem eru sums staðar gerðir á svipuðum forsendum og skattaskjól.

Ég vil samt undirstrika að ég held að það sem við erum að gera sé langt frá því og miklu meira í anda þeirrar heilbrigðu samkeppni sem við höfum viljað hafa í skattamálum (Forseti hringir.) og ég tel að sé alla jafna öllum til góðs.