136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[23:31]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér um frumvarp til laga um breyting á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi, með síðari breytingum. Megininntak frumvarpsins er að hækka endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar á Íslandi úr 14% í 20%. Ekki þarf að fjölyrða um það að þetta getur orðið mikil lyftistöng fyrir þennan iðnað á Íslandi og laðar vonandi til landsins enn fleiri erlenda aðila sem munu hafa áhuga á að kvikmynda hér og færa á filmu til að sýna úti um allan heim, hvort sem eru heimildarmyndir eða aðrar gerðir kvikmynda.

Í frumvarpinu er reynt að jafna samkeppnisstöðu íslensks kvikmyndaiðnaðar gagnvart sambærilegri starfsemi í öðrum ríkjum, ekki síst öðrum Evrópuríkjum. Það sem mér finnst aðeins skjóta skökku við í þessu — af því að kvikmyndagerð er stór og mikill iðnaður og það að gera alvörukvikmyndir þarfnast mikils undirbúnings, langs undirbúnings, frá því að ákveðið er að fara af stað í handritagerð og alla þá undirbúningsvinnu sem þarf þar til að út kemur endanleg vara sem sýnd er í kvikmyndahúsum eða sjónvarpi um allan heim — er sá tímarammi sem settur er. Ég hefði helst viljað sjá að hér væru stigin skref af fullri alvöru til að láta þetta lagafrumvarp virka sem lyftistöng fyrir þennan iðnað og til að laða erlenda aðila að slíkri starfsemi hér á landi. En þessi tímamörk gilda til 31. desember 2011. Ég hræðist að lagabreytingin nái ekki tilgangi sínum út af þessum tímamörkum.

Nú eru níu mánuðir eftir af árinu 2009, virðulegi forseti. Ég fullyrði að einhverjir aðilar úti í heimi, sem munu geta hugsað sér að líta til Íslands í þessu sambandi, við handritagerð og undirbúning fyrir kvikmyndagerð, munu hverfa frá því verkefni og þeim áætlunum út af þeim tímaramma. Ég skil ekki af hverju hann er, hann er íþyngjandi og er ekki í samræmi við markmiðið. Ég legg til, virðulegi forseti, að þetta verði skoðað.

Íslensk náttúra er ótrúleg og eitt helsta aðdráttarafl lands gagnvart þessum iðnaði. Við eigum mikið af íslenskri ósnortinni náttúru, miklu meira en margar þær þjóðir sem við keppum við í þessu sambandi, þ.e. að laða að erlendan kvikmyndaiðnað. Við höfum í raun stigið stærri skref en margar aðrar þjóðir í því að vernda íslenska náttúru. Fyrir stuttu stofnuðum við stærsta þjóðgarð í Evrópu, Vatnajökulsþjóðgarð. Við ætlum að setja í það heilmikla fjármuni að gera þann þjóðgarð að veruleika og hafa þar myndarlega starfsemi. Hann þekur um 12% af flatarmáli landsins. Fyrir eru aðrir þjóðgarðar og verndarsvæði sem þekja um 8% af landinu. Við erum búin að taka frá u.þ.b. 20% af landinu, það er stærra svæði og stærra hlutfall en nokkur þjóð hefur gert, fullyrði ég. Það er alveg ljóst í mínum huga að ef við spilum vel úr þessu og tökum það til skoðunar að hafa ekki þessi tímamörk í lögunum munu þessi svæði vera þungavigt í framtíðinni þegar kemur að því að velja Ísland sem stað fyrir kvikmyndatöku. En tilbúin íslensk náttúra er ekki síður spennandi fyrir þennan vettvang, þ.e. þær náttúruperlur sem hafa orðið til vegna aðgerða okkar mannanna, vegna virkjanaframkvæmda og nýtingar náttúruauðlinda. Er þar helst að minnast á Bláa lónið sem er orðið sá staður sem mestur fjöldi ferðamanna sem til Íslands kemur sækir, og hefur slegið við hinum gullna hring, Gullfossi og Geysi. Það hefur verið og verður örugglega vettvangur kvikmyndagerðar í framtíðinni. Öll stöðuvötnin, allt frá Elliðavatni, Mývatni og Þingvallavatni, allar þessar tilbúnu náttúruminjar munu nýtast í þessum tilgangi líka.

Sérstök tilfinning fylgir því að fara í kvikmyndahús og horfa á íslenska kvikmynd sem unnin er og kvikmynduð á Íslandi. — Virðulegi forseti, já, það getur verið kómískt líka, ég átta mig á því. Ég reikna með að virðulegum forseta detti í hug einhver kvikmynd sem ég man ekki eftir og einhver skemmtileg atriði í henni sem vekja hlátur forseta. Það er partur af því líka að gleðjast þegar maður fer í kvikmyndahús, vissulega er það hárrétt. Tek ég undir það með virðulegum forseta að stundum hlær maður í bíó og aldrei er gert nóg af því í sjálfu sér.

Að sjá myndir eins og James Bond myndina sem var unnin hérna og ræða svo um hana við útlendinga, horfa á mynd eins og, svo ég sletti aðeins, Flags of Our Fathers, sem var unnin á Suðurnesjum af Clint Eastwood — það er ákveðið stolt og ákveðin upplifun að sjá það umhverfi á þeim vettvangi. Að sitja síðan heima í stofu með fjölskyldunni og geta bent börnum og barnabörnum á hina og þessa þætti, ég tala nú ekki um ef maður hefur orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að vera beinn eða óbeinn þátttakandi í því með einhverjum hætti, er mikil upplifun.

Ég fagna því skrefi sem stigið er með frumvarpinu. Ég fagna því að vinstri flokkarnir í ríkisstjórn skuli vera samstiga okkur sjálfstæðismönnum í að sjá þetta sem möguleika í framtíðinni og sjá að liðka þarf fyrir þessari starfsemi með ýmsum möguleikum, laða að ameríska kvikmyndagerð, laða hingað Hollywood-stjörnur. Reyndar er ákveðin mótsögn í því þegar ég hugsa um vinstri græna annars vegar og ameríska Hollywood-kvikmyndagerð hins vegar, mér finnst það svolítið kómískt en vissulega er það ánægjulegt. Svo læra menn auðvitað.

Ég hef, virðulegi forseti, ákveðna reynslu af því að taka þátt í þessu. Mikil atvinnusköpun og mikil verðmæti eru fólgin í þessu. Íslenskur kvikmyndaiðnaður fær að vonum ríkulegan ávöxt af þessari starfsemi, íslenskt kvikmyndagerðarfólk fær tækifæri til að starfa við hlið heimsþekktra framleiðenda og afla sér reynslu og þekkingar, sem er ómetanlegt, auk þeirra beinu tekna sem þessu fylgja. Það eru síðan alls konar aðilar í samfélaginu sem njóta þess líka að hafa af því tekjur og fá við þetta vinnu. Þegar ég var í forustu við björgunarsamtök landsins kom ég oft að þessu með beinum og óbeinum hætti á þeim vettvangi. Vinsælt svæði í kvikmyndagerð hefur verið svæðið í Öræfasveit og þar um slóðir og oft og tíðum hefur þetta verið drjúg fjáröflunarstarfsemi fyrir t.d. björgunarsveitir á upptökusvæðum til að sinna öryggisgæslu og öðrum mikilvægum þáttum í kringum starfsemina sem ekki væri hægt að flytja inn en við búum svo vel að eiga þetta fólk, þessa þjálfun og þennan búnað til að geta lagt umræddum verkefnum lið. Til dæmis léku björgunarsveitirnar lykilhlutverk við framleiðslu stórmyndarinnar Flags of Our Fathers, sem framleidd var af Clint Eastwood á Suðurnesjunum. Ég hafði mjög gaman af því að fara suður eftir og hitta þetta fræga fólk, m.a. kvikmyndaleikstjórann sjálfan. Þarna sinntu sveitirnar miklum öryggisþáttum, stóðu sólarhringsvaktir og voru með báta og búnað til taks ef eitthvað bæri út af í öllum sjóatriðum og þær höfðu af þessu umtalsverðar tekjur. Þetta var mikil lyftistöng fyrir þá starfsemi. Þannig getur þetta haft alls konar hliðarverkanir sem eru jákvæðar fyrir okkur líka.

Ekki er hægt að tala um þetta án þess að nefna þá mikilvægu landkynningu sem í þessu felst. Það var dálítið gert úr því að við ætluðum fyrir þetta ár, ef ég man rétt, virðulegi forseti, að setja u.þ.b. 100 millj. kr. í aukaframlag til ferðaþjónustunnar til að mæta þeim samdrætti sem hefur orðið. Hundrað milljónir eru ekki upp í nös á ketti í markaðssetningu erlendis, það dugar kannski í sæmilega auglýsingaherferð í Skandinavíu, ef það dugar þá til þess. En við getum rétt ímyndað okkur hvað það þýðir fyrir fræga kvikmynd sem fer um heiminn, byrjar í kvikmyndahúsi af því að þannig er ferlið, stórmyndir byrja allar í kvikmyndahúsum, síðan fara þær í sjónvarpsstöðvar sem eru greiddar og áskriftarstöðvar, síðan fer þetta yfir í opið sjónvarp og svo vídeó þar sem fólk getur leigt sér myndirnar. Það eru milljónir, tugir milljóna og jafnvel hundruð milljóna sem sjá svona myndir. Við getum ímyndað okkur landkynninguna sem felst í því. Það er kannski þess vegna, þegar taflan er skoðuð yfir þessi framlög, sem við sjáum hvað aukningin á þessum verkefnum frá árunum 2003–2004 er í raun mikil. Það er kannski þess vegna sem við horfum upp á að ferðamannastraumur til landsins hefur aldrei vaxið eins mikið og frá árinu 2004 til dagsins í dag, aldrei vaxið eins mikið, og það þrátt fyrir hvalveiðar á sama tíma.