136. löggjafarþing — 123. fundur,  1. apr. 2009.

endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi.

407. mál
[23:46]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp til laga um breyting á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar á Íslandi. Mig langar til að taka upp þráðinn frá því sem hv. þm. Jón Gunnarsson nefndi áðan og taka undir áhyggjur hans af þeim tímaramma sem skapast af því að við síðustu breytingar 2006 var ákveðið að þessum tímabundna stuðningi skyldi haldið áfram í fimm ár í viðbót.

Ég tek undir það sem hv. þingmaður sagði að það hlýtur að verða verkefni iðnaðarráðherra mjög fljótlega að láta kanna hvort ekki sé ástæða til að framlengja lögin enn frekar. Ekki síst í ljósi þess stóra skrefs sem hér er verið að taka varðandi hækkun á endurgreiðsluhlutfallinu. Það kemur nefnilega fram í öllum gögnum málsins að það litla skref sem tekið var 2006 úr 12% upp í 14% skilaði ekki því sem vænst var, að minnsta kosti ekki hvað það varðaði að laða hingað frekar erlenda kvikmyndagerðarmenn.

Menn hafa verið að ræða ýmislegt í tengslum við kvikmyndir og það er auðvitað svo merkilegt til þess að hugsa hversu gífurleg þróun hefur orðið í íslenskum kvikmyndum, sérstaklega fyrir okkur sem komin erum á miðjan aldur og höfum upplifað hana. Mér er það mjög minnisstætt þegar íslenskar kvikmyndir komu fyrst fram þegar ég var yngri, það voru auðvitað ekki fyrstu kvikmyndirnar sem hér voru gerðar, þær komu miklu fyrr. En þessar fyrstu myndir af því sem kallað er venjulegri kvikmyndalengd og voru auðvitað börn síns tíma. Hljóðið var eins og það var og það var alltaf eitthvað tæknilegt að en alltaf fórum við samt á hverja einustu íslensku mynd sem var frumsýnd. Síðan hefur margt gerst og mikið breyst og þessi iðnaður er orðinn alvöruiðnaður og er samkeppnisfær við það besta sem gerist í útlöndum. Það er meira að segja orðið þannig núna að það er ekkert sjálfgefið að fara að sjá allar íslenskar kvikmyndir frekar en það er sjálfgefið að fara á allar erlendar kvikmyndir sem hér eru sýndar.

Eins og hér kom til tals áðan þá er eðli kvikmyndanna þannig að í bíói hlæjum við mjög oft og grátum jafnvel líka. Það frábæra við kvikmyndir er líka það að þær sýna okkur að við eigum listafólk á heimsmælikvarða. Við eigum leikara sem eru ekki síður góðir og jafnvel enn þá betri en margir þeir færustu erlendis. Þetta sýna kvikmyndirnar okkur.

Á þá endurgreiðsluleið sem farin var með lögunum 1999 er komin tíu ára reynsla og það er svo merkilegt að geta horft núna til baka og metið hver árangurinn var af þeim aðgerðum sem þarna var gripið til. Árangurinn er nákvæmlega sá að þessi iðnaður, kvikmyndaiðnaðurinn, er orðinn atvinnugrein sem veltir milljörðum króna. Atvinnugrein sem er með margfeldisáhrif af því að það er talið að hver króna sem lögð er í þennan iðnað skili tveimur krónum og fimmtíu aurum í margfeldisáhrif því þessu fylgir alls konar þjónusta og margvísleg störf. Það þarf að sinna þeim hópum sem hingað koma. En það sem er það besta af þessu öllu saman er að hingað hafa komið verkefni á landsvæði þar sem kannski ekki hefði verið svo margt um að vera ella. Enn ein hliðaráhrifin er ferðaþjónustan og þau áhrif sem þar hafa komið fram.

Ég held að þetta sé dæmi um stuðning við atvinnustarfsemi sem heppnast vel. Ég held að það sé mikilvægt á þeim tímum sem við lifum þegar atvinnuleysi er í þeim stigum sem raun ber vitni, að ríkisstjórnin ætti að vinda sér í það að kanna hvort það væru kannski einhverjar svipaðar atvinnugreinar sem hægt væri að koma á stuðningi við sem mundi með jafngóðum hætti efla og styðja viðkomandi atvinnugrein. (Forseti hringir.) En síðast en ekki síst yrði það að vera með gegnsæjum og öruggum hætti.