136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[00:07]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég botna ekkert í þessari umræðu vegna þess að þegar þingfundur hófst í dag óskaði hæstv. forseti samkvæmt þingsköpum eftir því að hér yrði haldið áfram þar til dagskrá yrði tæmd. Við því var engum mótmælum hreyft, engum, í þessum sal þannig að öllum mátti vera ljóst að ætlunin var að ljúka því 21 máli sem hér er á dagskrá.

Það er ekki sök okkar þingmanna, sem höfum áhuga á því að þingstörf gangi greiðlega fyrir sig og menn klári hér þjóðþrifamál sem eru á dagskrá, eins og umræður um barnaverndarlög, fjármálafyrirtæki, stjórn fiskveiða, niðurgreiðslu húshitunarkostnaðar og fleiri góð mál, þótt þingmenn Sjálfstæðisflokksins ákveði að standa hér í pontu og þylja upp íslenska leikstjóra aftur í tímann og lesa aðra hluti upp í pontu sem hafa ekkert með málið að gera, ekki neitt.

Ég krefst þess, virðulegi forseti, að við höldum áfram með dagskrána þannig að við sem höfum beðið hér í allt kvöld eftir að fá að ræða mikilvæg mál förum líka að fá að komast heim. Hættið þið svo þessu helvítis væli, (Forseti hringir.) afsakaðu orðbragðið, virðulegi forseti.