136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[00:23]
Horfa

Frsm. iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þakkirnar fyrir að við skyldum hafa skýrt þetta. Það var náttúrlega alveg ljóst að þegar jafnvanur landsbyggðarþingmaður og hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir áttaði sig ekki á hvað hér var á ferðinni þyrfti að skýra málið betur. Í umræðum sagði hv. þingmaður, með leyfi forseta:

„Áður fóru sem sagt 99% úr pottinum í beinu niðurgreiðslurnar, en nú verða það 97%. Þannig að ekki getur annað verið en að þetta hafi áhrif á það sem fer beint til notenda.“

Í annan stað, virðulegi forseti, sagði hv. þingmaður í umræðunni:

„Þannig að það sem fer beint til heimilanna hlýtur að minnka og húshitunarkostnaður hvers heimilis að hækka.“

Þennan grundvallarmisskilning þurfti að skýra vegna þess að ekki vildum við að þeir sem á þann virta landsbyggðarþingmann hlýddu héldu að þetta ætti raunverulega að gerast, það mátti auðvitað ekki skilja eftir opið hér í umræðunni. Staðreyndin er sú að þessum fjárlagalið er skipt með þeim hætti að 26% fara í stofnstyrki og orkusparandi aðgerðir og hafa gert það hingað til. Það er verið að tala um tilfærslur og nýja forgangsröðun innan þess hlutfalls en ekki þeirra 74% sem hingað til hafa farið beint til niðurgreiðslna hjá heimilunum.

Varðandi varmadælur og aðrar orkusparandi aðgerðir — til þess er leiðangurinn gerður — hafa hagkvæmnisúttektir sýnt að menn telja rétt að fara út í það. Menn hafa líka verið að skoða fleiri leiðir til orkusparandi aðgerða og eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu þá eru menn líka að fara í það verk á köldu svæðunum að mæta kostnaði við það t.d. að einangra betur húsnæði og grípa til annarra slíkra ráðstafana sem geta sparað orku.