136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[00:31]
Horfa

Frsm. iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Auðvitað á ekki að gera það en við höfum verið mjög upptekin í iðnaðarnefnd og haldið marga aukafundi upp á síðkastið en hv. þingmaður situr ekki í þeirri nefnd og veit kannski ekki hvað þar hefur verið á ferðinni. Við höfum setið við og verið að reyna að vinna vel þingmálinu um heimild til að ganga til samninga um álver í Helguvík og það hefur tekið allan tíma nefndarinnar. Við kláruðum það mál út til 2. umr. í hádeginu og þar með losnaði um tíma iðnaðarnefndar nema einhverjir hér kalli málið til nefndarinnar á milli 2. og 3. umr.

Vegna þess að frá því að við töluðum saman hér í ræðustól síðast hefur losnað svo um hjá nefndinni að möguleiki er á að við höfum tækifæri og tíma til að fara betur yfir þessi mál. Hér er enginn neitt að grínast, virðulegi forseti, og ég held að hv. þingmaður verði að átta sig á því að hér er enginn að grínast þegar hann segir að alla hluti verði að skoða og þar á meðal raforkuverð til garðyrkjubænda (Forseti hringir.) þegar talað er um atvinnuuppbygginguna sem er nauðsynleg í þeirri vegferð sem fram undan er.