136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[00:34]
Horfa

Frsm. iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (andsvar):

Já, virðulegi forseti, það er rétt og þakkarvert að hv. þingmaður lagði hér fram mjög gott innlegg og vangaveltur inn í umræðuna sem varð hér við 2. umr. Staðreyndin er hins vegar sú að þegar við skiluðum málinu hingað til 2. umr. var umfjöllun nefndarinnar lokið. Síðan var málið kallað inn af þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins, sem er þingflokksformaður hv. þingmanns, og ástæður sem fyrir því voru gefnar og það sem óskað var eftir að yrði skoðað sérstaklega í nefndinni var það sem ég gerði hér grein fyrir í nefndaráliti en ekki það sem hv. þingmaður fjallar um.

Líka kom fram, virðulegi forseti, við 2. umr. að hv. þingmaður virtist standa einn í sínum flokki með þessa skoðun, a.m.k. hvað varðar þá fulltrúa sem hér tóku þátt í umræðunni. Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir fór hér í andsvör við hv. þingmann og mótmælti eða var andvíg hugmyndum hans og nálgunum og því taldi ég ekki ástæðu til að taka þetta mál upp á milli 2. og 3. umr. (Forseti hringir.) inni í nefndinni, en ég trúi því að Alþingi hljóti að gera það og hv. þingmaður hlýtur þá fyrst að ætla að vinna þessum skoðunum sínum fylgi innan flokks síns.