136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[00:45]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Vegna þeirrar umræðu sem spannst áðan um æskilega viðveru iðnaðarráðherra hæstv. og ráðherra byggðamála upplýsi ég þá skoðun mína að það komi svo sem ekki að stórri sök þó að hæstv. ráðherra sé (Gripið fram í.) ekki viðstaddur upphaf minnar gagnmerku ræðu við framlagningu þessa máls. En fullgild sjónarmið að baki þeirri ósk sem hér hefur komið fram um að æskilegt sé að ráðherra þeirra mála sem hér um ræðir sé viðstaddur umræðu sem þessa eru mjög góð sjónarmið og eiga fullan rétt á sér. Ég tek heils hugar undir þau.

En eins og komið hefur fram í umræðum í kvöld er þetta dálítið afbrigðilegur fundartími og hefur greinilega ekki verið unnt að verða við óskum þeirra þingmanna sem óskað hafa eftir því að gera hlé á þingstörfum og halda umræðu áfram á morgun. Því er geta þingmanna til að sinna þeirri umræðu sem hér fer fram mismunandi. Formaður iðnaðarnefndar á heiður skilinn fyrir að hafa tekið þátt í þeirri umræðu sem farið hefur fram. Og þó svo að þreyta og löng fundarseta séu farnar að segja örlítið til sín vænti ég þess að við látum það allt saman líða létt um æðar okkar og jöfnum okkur á því öllu saman.

Varðandi það mál sem liggur fyrir hefur töluvert verið spurt um með hvaða hætti þetta snerti heimili landsins. Hér hefur komið fram, eins og var upplýst af hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur, formanni iðnaðarnefndar, að um 9% heimila landsins sem kynda húsnæði sitt með rafhitun. Það er því töluvert stórt mál á þá vísu sem lýtur að því hvernig við viljum byggja landið og búa fólki sem víðast um land sem jöfnust búsetuskilyrði og möguleika til þess að hafa þokkalega afkomu.

Ríkið niðurgreiðir á hverju ári með regluverki sínu kyndingarkostnað þessara heimila og kostnaður við það nemur rétt um einum milljarði á hverju ári. Og af því að hér var spurt hvar þessi heimili væru er rétt að undirstrika að þetta er ekki eingöngu bundið við veitufyrirtæki og veitusvæði úti á landi. Það eru líka heimili sem falla undir þessar niðurgreiðslur á orkuveitusvæði stóru veitnanna hér fyrir sunnan. Það eru því heimili sem ekki eru tengd hitaveitum og nýta raforku til kyndingar.

En uppistaðan í þessu er að sjálfsögðu fyrst og fremst á byggðum fyrir austan, á Austfjörðum, og á syðri hluta Vestfjarða. Meginatriðið og skilin á milli byggðarlaga og húsa í þessum efnum eru þau þar sem ekki hefur tekist að bora og virkja heitt vatn og þar er um að ræða þessar niðurgreiðslur sem hér um ræðir.

Það dylst engum hverslags búbót það er fyrir sérhvert byggðarlag að unnt sé að bora og komast niður að heitu vatni. Það hafa flestir þingmanna á hinu háa Alþingi upplifað á sjálfum sér. Í það minnsta man sá sem hér stendur glöggt eftir því þegar hitaveita var fyrst lögð í hans heimasveit á Dalvík á árum áður. Það var gríðarlegur léttir fyrir alla sem áttu þess kost að tengjast hitaveitunni. Og enn þann dag í dag sér maður þær breytingar sem verða á samfélögum við þá búbót sem af því hlýst þegar unnt er að tengja heitt vatn inn á veitukerfin.

Úrræðum eða tækifærum á þessu sviði fer þó fækkandi. Stærri þéttbýli eru flestöll komin með hitaveitu og möguleikar stærri þéttbýlisstaða til þess að tengjast hitaveitu eru ekki jafnmiklir eins og þeir voru. Síðustu stóru veiturnar sem komið hafa að þessu verki eru í Stykkishólmi, Dalabyggð og á Eskifirði, vænti ég. Síðasta hitaveitan tel ég að hafi verið sú sem tengd var frá Reykjum í Fnjóskadal út á Grenivík, Reykjaveita svo kölluð.

Úrræðum fer fækkandi. Þeim póstum, þ.e. hvað varðar niðurgreiðslu á raf- og olíukyndingu, að spara og leggja þá hitunarkosti af og taka upp hitaveitu í staðinn, fer fækkandi þannig að nú er farið að leita annarra leiða.

Eins og frumvarpið ber með sér er gert ráð fyrir því að þær breytingar verði gerðar á að styrkir til þess að draga úr orkukostnaði verði auknir. Þar er horft sérstaklega til tveggja þátta, annars vegar nýrra leiða varðandi varmadælur og hins vegar þess sem á að leiða til rafmagnssparnaðar vegna þess að það eru svæði sem eiga enga aðra kosti en þá að vera bundin rafmagni eða olíukyndingu. Væntanlega viljum við frekar horfa á rafmagn í þeim efnum og verðum þá bundin af því um ókomna framtíð að hita húsnæðið með rafmagni. Þá eigum við þá kosti að finna nýja tækni til upphitunar og horfa menn í þessu sambandi til varmadælu sem dregur úr raforkukostnaði sem nemur tveimur þriðju hlutum af kostnaðinum, og hins vegar endurbóta á húsnæði.

Það eru þeir kostir sem verið er að skoða. Hér var rætt töluvert um hvort það kæmi fram með þeim hætti að dregið yrði úr niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði þeirra sem fyrir væru. Eins og kom fram í orðaskiptum hv. þingmanna áðan komu upp spurningar við 2. umr. sem ollu því að málinu var vísað til nefndar vegna þess að málið var dálítið óljóst. Skyldi engan undra vegna þess að í umsögn m.a. frá Rarik er ákveðinn fyrirvari sem laut að 8. gr. frumvarpsins eins og það lá fyrir, það á við styrkveitinguna eða endurgreiðsluna. Í staðinn fyrir að tekið sé 1% af stóru fjárhæðinni, sem 1.176 millj. kr., til þessara rannsókna, fara 3%. Það er sem sagt hækkað úr 1% í 3%. Athugasemd Rariks er svohljóðandi, með leyfi forseta:

„Ef ekki kemur til hækkun á þeim lið fjárlaga sem vísað er til, mun þessi breyting væntanlega valda hækkun á húshitunarkostnaði hjá notendum með niðurgreiðslur. Minna fé verður eftir til beinna niðurgreiðslna, þrátt fyrir að ekki sé gert ráð fyrir að það verði niðurstaðan á árinu 2009.“

Það er í sjálfu sér mjög eðlilegt að menn setjist yfir þá athugasemd sem kemur frá þessu fyrirtæki, Rarik, af öllum fyrirtækjum, einfaldlega vegna þess að þar innan búðar hafa menn mjög mikla þekkingu á þessum málum. Sömuleiðis er þetta það fyrirtæki sem hefur hvað besta tengingu við þennan þátt mála og þjónusta, vænti ég, og hefur flesta notendur í þessu efni. Það var því einboðið að sérstaklega yrði gefinn gaumur að þessum þætti í umræðu nefndarinnar og yfirferð.

Það var gert, eins og kom fram í máli formanns nefndarinnar, áðan hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur, þar sem undirstrikað er það álit og sú niðurstaða nefndarinnar og ítrekað í framhaldsnefndarálitinu. Ég fagna sérstaklega áherslunni sem á það hefur verið lögð að orðrétt stendur í framhaldsnefndarálitinu, þrátt fyrir að þessar breytingar sem af frumvarpinu leiða séu og verði gerðar, með leyfi forseta:

„Því mun ekki koma til lækkunar á beinum niðurgreiðslum húshitunarkostnaðar í tengslum við breytingarnar. Nefndin áréttar að breytingin hefur engin áhrif á rafmagnsreikninga þeirra heimila sem eru með rafhitun.“

Svo mörg voru þau orð þannig að sá skilningur og sú afstaða liggur mjög ljós fyrir í því nefndaráliti sem hv. formaður iðnaðarnefndar kynnti áðan.

Við getum því í rauninni sagt og viðurkennt að eins og málin standa í dag hafa verið veittir gríðarlega öflugir og miklir styrkir, svokallaðir stofnstyrkir, af þessum fjárlagalið á undanförnum mörgum árum til þess að stuðla að því að draga úr rafmagns- eða olíukyndingu húsa vítt um land og styrkir veittir úr þessum sjóði til þess að standa straum af því að stofnsetja nýjar hitaveitur.

Í greinargerðinni með frumvarpinu og nefndaráliti er undirstrikað að náðst hafi verulega miklir og stórir áfangar í þessum efnum á undanförnum árum og er það vel. Það er m.a. eitt af þeim verkum sem ég vil telja fyrrverandi ríkisstjórnum til tekna að hafa unnið mjög markvisst og öflugt að. Það er ágætisdæmi um að hér er ekki allt í rúst eins og sumir vilja halda fram, eftir átján ára stjórnarforustu þess stjórnmálaflokks sem ég tilheyri. Það er langur vegur frá að svo sé á mörgum sviðum þjóðlífs og þetta er eitt þeirra.

Við erum búin að fara yfir þær breytingar og áherslur sem ég vil leggja áherslu á og er sammála, ég er mjög áfram um að þetta mál gangi fram. Ég er sammála því að við eigum að þreifa okkur inn á aðrar lausnir en hingað til hafa verið uppi á borðum og ég spurði um það í umræðum í nefndinni hvernig menn hugsuðu þetta mál til enda. Ég tel að það skorti kannski örlítið upp á í vinnslu ráðuneytisins að greina betur hver þörfin fyrir þær breytingar sem hér eru boðaðar er í raun á öllu landinu.

Hvernig er ætlunin að vinna þetta verk? Hvernig á að gera þetta? Fram kom við þær spurningar að Orkusetur Orkustofnunar á að hafa forgöngu um og annast þetta verkefni og halda utan um það. Væntanlega verður þessum spurningum þá svarað af ágætum starfsmönnum þeirrar stofnunar. Á hvað löngum tíma gera menn ráð fyrir að niðurgreiðslurnar sem um ræðir falli út? Flestir vilja örugglega sjá það gerast sem fyrst.

Loks vil ég spyrja — og hef áður spurt um — hver forgangsröðunin í þessum efnum á að vera. Hvað á að ráða því hvar fyrst á að byrja? Hver á að ráða því hvar í landinu fyrst á að bera niður? Hvaða úrræði eigum við að bjóða heimilum sem undir þetta falla? Þegar við erum búin að setja þetta niður fyrir okkur, sem ég vænti að verði gert, getum við kannski kallað eftir einhverju mati á því hvaða árangri á að ná með þeim aðferðum sem menn boða í því frumvarpi sem liggur fyrir. Eftir því hljótum við að kalla.

Samandregið má segja að niðurstaða mín varðandi þetta mál sé sú að í eðli sínu sé það gott. Ég tel þó vanta einhverja áætlun um hvernig á að ná árangri, tímasetja það og ábyrgðarsetja.