136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[01:00]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Við erum langflest mjög sammála hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni í þeim áherslum sem hann dró hér fram varðandi mikilvægi þess að jafna húshitunarkostnað í landinu og gefa sem flestum möguleika og tækifæri til að grípa til aðgerða í þá átt.

Sú áhersla sem lögð hefur verið á það hér landi að leita eftir heitu vatni til að hita hús og hve stór hluti húsnæðisins er hitaður upp með heitu vatni á sér sjálfsagt vart hliðstæðu í heiminum. Þess vegna er mjög mikilvægt að ekki sé slegið slöku við að leita jafnvel nýrra leiða til þess að þeir sem ekki hafa tök á að ná í heitt vatn geti fundið aðrar leiðir til hagræðingar í kyndingu.

Ég vil t.d. benda á hversu óréttlátt þetta er að í fyrirspurn til skriflegs svars sem ég lagði fyrir iðnaðarráðherra fyrir skömmu kom fram að í Reykjavík kostar um 60 þús. kr. á ári að hita hús sem er á annað hundrað fermetra en 147 þús. kr. að hita tilsvarandi hús á Skagaströnd þar sem hitað er upp með rafmagni. Við sjáum því hversu gríðarlegur aðstöðumunur og kjaramunur felst í (Forseti hringir.) húshitunarkostnaði. Orkan í landinu er sameign okkar allra að mínu mati og (Forseti hringir.) við eigum að sitja við sama borð þar.