136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[01:07]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil undirstrika að það er enginn ágreiningur um þær áherslur sem fylgja þessu frumvarpi. (Gripið fram í.) Það er fullkomin samstaða um það meðal allra stjórnmálaflokka á Alþingi að búa íbúum landsins sem jöfnust skilyrði til búsetu. Það þýðir ekkert fyrir hv. þm. Jón Bjarnason að reyna að eigna þau sjónarmið einhverjum tilteknum stjórnmálaflokki.

Þar sem hann nefnir Skagaströnd sérstaklega og að það eigi ekki að mismuna íbúum einstakra svæði hvort heldur í Reykjavík eða á Skagaströnd, vil ég nefna það að í fjárlögum sem samin voru af fyrrverandi ríkisstjórn og staðfest — hversu góð eða vond sú ríkisstjórn var að mati hv. þingmanns — var sérstök fyrirgreiðsla til hitaveituframkvæmda einmitt á Skagaströnd og langt umfram fyrirgreiðslu sem íbúar annarra sveitarfélaga hafa fengið. Ég minnist þess ekki að hafa heyrt einhver mótmæli frá hv. þingmanni við þessari sértæku aðgerð til íbúa þessa ágæta sveitarfélags Þetta er bara gott mál. (Gripið fram í.) Ég heyrði aldrei neitt á það minnst þegar það var gert og þar sem svo vill til að þetta er í ákveðnu kjördæmi sem hv. þingmaður þekkir þokkalega vel að þá hef ég ekki heyrt hann kvarta mikið undan þeirri mismunun sem þarna átti sér stað og geri þar af leiðandi ráð fyrir að hún sé af hinu góða því að flest mál sem þannig háttar til um eru lítt rædd af því stjórnmálaafli sem hv. þingmaður tilheyrir.