136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[01:09]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Farið var fram á það áðan að hæstv. iðnaðarráðherra væri við umræðuna og forseti hét því að beita sér fyrir því að hæstv. ráðherra kæmi til umræðunnar. Nú hefur það gerst að hv. þm. Jón Bjarnason, þingflokksformaður Vinstri grænna, hefur lýst vantrausti á hæstv. iðnaðarráðherra vegna frammistöðu hans í orkumálum og stuðningi við það að jafna búsetukosti í landinu.

Ég mundi segja, hæstv. forseti, að þetta væru töluvert alvarlegar ásakanir frá hv. þingflokksformanni Vinstri grænna á hendur iðnaðarráðherra sem er í þeirri ríkisstjórn sem hann hefur stutt. Og hvað gerist hér í umræðunni? Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson þarf að standa upp og verja hæstv. iðnaðarráðherra. (Forseti hringir.) Ég tel að það sé fullkomin ástæða til (Forseti hringir.) að hæstv. iðnaðarráðherra komi hér til umræðunnar og svari fyrir sig.