136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[01:10]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Mér sýnist að það sé farið að slá út í fyrir hv. þingflokksformanni Sjálfstæðisflokksins. (ArnbS: Af hverju segirðu þetta?) Að hafa ekki fylgst betur með. Ég var einmitt að hæla bæði hæstv. iðnaðarráðherra mjög fyrir það að nýta þá möguleika sem þarna voru til að leggja þetta frumvarp fram og líka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni, (Gripið fram í: En Sjálfstæðisflokknum?) í Sjálfstæðisflokknum fyrir mjög góða ræðu og góðar undirtektir og meðferð á þessu máli og allan þann stuðning sem hann lýsti að hann hefði veitt þessum málaflokki. Það tekur mig því frekar sárt að heyra hv. þingflokksformann misskilja málið með þessum hætti. En hafi þingflokksformanninum fundist orðin liggja í þá veru biðst ég innilega afsökunar á því, því að (Forseti hringir.) bæði hæstv. iðnaðarráðherra og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson eiga allt mitt hrós skilið fyrir það mál sem hér er til umræðu. (Forseti hringir.) Ég bið frú forseta að hjálpa mér til að leiðrétta þennan misskilning sem hv. þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins hefur lent í. Þetta er svo frábært mál frá báðum þessum aðilum, bæði (Forseti hringir.) hæstv. ráðherra og hv. þingmanni að ég get ekki (Forseti hringir.) nógsamlega lýst því með orðum.