136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[01:12]
Horfa

Frsm. iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Arnbjörg Sveinsdóttir tekur starf sitt sem þingflokksformaður mjög alvarlega og kemur hér upp á milli sérhvers ræðumanns til að lengja aðeins í tímanum augljóslega.

Mig langaði bara að benda á og taka aðeins upp hanskann fyrir hv. þm. Jón Bjarnason sem flutti ágætisathugasemdir við ræðu hv. þm. Kristjáns Þórs Júlíussonar og einmitt hrósaði þeirri vinnu í hárstert sem unnin hefur verið. Ég veit að við erum öll sammála hér inni um hvaða leiðir skuli fara, við viljum öll jafna búsetuskilyrði í landinu algerlega óháð því hvar menn búa. Ég held að menn ættu ekki að gera fólki upp skoðanir í þessum efnum vegna þess að akkúrat í þessu máli höfum við náð samstöðu.

Ég tel hins vegar og virði hv. þm. Jóni Bjarnasyni það til vorkunnar að auðvitað hefði hann líka viljað koma þessari skoðun sinni að með einum og öðrum hætti vegna þess að níu hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa nú raðað sér á mælendaskrá og það er ekkert auðvelt að komast á mælendaskrána, virðulegi forseti, áður en menn fara hér án efa — ég ætla bara að gera mér það í hugarlund að eftir kannski þrjár ræður verði menn (Forseti hringir.) farnir að telja hér upp virkjanir og virkjanakosti og önnur álíka efnislega (Forseti hringir.) mikilvæg efni sem þessu tengd. Ég skil hv. þingmann mætavel að hafa viljað koma upp núna (Forseti hringir.) og lýsa þessari skoðun sinni í athugasemd.