136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[01:16]
Horfa

Björk Guðjónsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða frumvarp um breytingar á lögum um niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar á köldum svæðum. Það er ekki laust við að hálfgerður kuldahrollur sé í manni þegar klukkan er farin að ganga tvö og við erum búin að vera hér í allan dag, þetta er orðinn langur dagur, þrátt fyrir að við séum í heitu húsnæði sem kynt er með hitaveitu sem ekki er niðurgreidd. En svona getur það verið að þrátt fyrir að maður sé í heitu húsnæði, þegar þreytan fer að segja til sín dugar það oft og tíðum ekki.

Virðulegi forseti. Með frumvarpi þessu er ætlunin að draga úr húshitunarkostnaði íbúa á köldum svæðum sem ekki njóta hitaveitna. Það er einnig ætlunin að draga úr kostnaði ríkissjóðs til langtíma litið varðandi niðurgreiðslu til húshitunar.

Það hefur komið fram að tækifærin í nýjum hitaveitum á köldum svæðum eru hverfandi og því er hér verið að fara nýjar leiðir og veita stofnstyrki til íbúðareigenda sem hyggjast nýta sér varmadælur til að minnka húshitunarkostnað til lengri tíma litið. Það verður nefnilega að teljast ólíklegt að unnt verði að koma upp hitaveitum á köldum svæðum þar sem er strjálbýlt og kostnaðarsamt að finna jarðhita og dreifa til notenda.

Það er einnig verið að leggja til að styrkja íbúðareigendur á köldum svæðum sem vilja leggja í breytingar á húsnæði sínu í þeim tilgangi að spara orku. Íbúðareigendur sem færu að ráðast í endurbætur sem leiða til orkusparnaðar, t.d. að endurglerja húsin sín, bæta einangrunina og fleiri aðgerðir sem lúta að betri einangrun og bættri orkunýtingu á þessum köldu svæðum.

Þær leiðir sem hér eru boðaðar eru að mörgu leyti mjög góðar og skapa atvinnu á þessum stöðum, sérstaklega meðal iðnaðarmanna. Við sjálfstæðismenn höfum sagt það að við erum tilbúin að styðja mál sem varða fyrirtæki og heimili og geta með einhverjum hætti styrkt atvinnulífið og þetta frumvarp leiðir m.a. til þess að iðnaðarmönnum á þessum köldu svæðum gæti verið sköpuð atvinna. Þess vegna styðjum við þetta frumvarp.

Ég geri þó ráð fyrir að það frumvarp sem við erum nýlega búin að samþykkja í þinginu, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af viðhaldi húseigna, gæti eflaust átt við þetta mál einnig, þ.e. ef íbúðareigendur á köldum svæðum ákveða að fara í endurbætur á húsum sínum til að draga úr orkunotkun.

Hér er einnig verið að gera þær breytingar að mögulegt er að styrkja breytta orkuöflun til húshitunar m.a. með varmadælum. Þær geta verið öflugur kostur til upphitunar húsnæðis á þeim stöðum þar sem ekki eru hitaveitur þar sem varmadælur leiða til betri orkunýtingar. Varmadælurnar eru misjafnar að gerð og spara mismikla orku.

Hér á landi er ekki komin mikil reynsla á notkun á varmadælum en eftir því sem mér skilst þá er full ástæða til þess að nýta okkur reynslu Svía í þeim efnum sem hafa notað þessa tækni töluvert á undanförnum árum og fengið nokkra reynslu í því og telja að varmadælur séu orkusparandi og því góður kostur fyrir okkur á köldum svæðum.

Virðulegi forseti. Umræðan um orku og orkusparnað leiðir hugann einnig að því hvernig við Íslendingar getum hugsanlega sparað orku. Það er ekki hefð fyrir því á Íslandi að spara orku og yfirleitt leiða Íslendingar ekki hugann mikið að því að það sé mögulegt að gera.

Allt önnur viðhorf gagnvart orkusparnaði eru t.d. í Evrópu þar sem það virðist beinlínis vera innprentað í Evrópubúa að nauðsynlegt sé að spara orku. Þar er t.d. viðtekin venja að fólk kyndir jafnvel aðeins þau herbergi í íbúðum sínum sem það notar hverju sinni eða situr í hverju sinni. Til dæmis þegar fólk situr inni í stofu á kvöldin þá er öllum gluggum og öllum hurðum lokað til þess að halda hitanum inni og spara þannig orku. Hið sama gildir um lýsingu, það er ekki verið að tendra ljós í öllu húsnæðinu þegar það er alger óþarfi þar sem fólk situr fyrir framan sjónvarpið og þarf ekki að vera með lýsingu nema í einu herbergi.

Þetta þekkjum við Íslendingar ekki. Við teljum okkur eiga nóg af orku og teljum okkur ekki þurfa að spara á þessu sviði en auðvitað þurfum við að hugsa til þess þó að við eigum hér á landi nægar orkulindir í fallvötnum og jarðhita er ekki þar með sagt að við þurfum ekki að spara.

Á heimasíðu Orkusetursins kennir ýmissa grasa og þar er hægt að fá ýmsar upplýsingar um sparnað á þessu sviði. Ég hef oft hugsað til þess að það þyrfti að fara í einhvers konar herferð til að kenna Íslendingum og benda þeim á með hvaða hætti hægt er að spara orku. Á heimasíðu Orkusetursins kemur ýmislegt fram hvað það varðar, eins og ég sagði áðan. Það kom fram spurning um það fyrr í kvöld hvað væru mörg heimili í landinu sem kynda híbýli sín með raforku. Það kemur fram á heimasíðu Orkusetursins að það eru 9% heimila í landinu sem nota rafhitun og njóta flest þeirra heimila niðurgreiðslna til húshitunar. Meðalheimili á Íslandi eyðir árlega í kringum 200–300 þús. kr. í orkukaup. Þeir hjá Orkusetrinu segja að með auðveldum hætti megi draga verulega úr þeim kostnaði, með því að spara orku í formi hita, rafmagns og olíu.

Á heimasíðunni má finna leiðbeiningar varðandi það hvernig við getum sparað og það er gaman að renna í gegnum þær leiðir hvernig við best spörum við eldavélina og hvernig við best spörum í þvottum. Síðan er talað um lýsingu og hvernig við eigum að haga okkur með uppþvottavélina, ísskápinn og ýmislegt fleira sem eru gagnlegar upplýsingar fyrir Íslendinga sem virkilega vilja taka á í orkusparnaði.

Við erum að tala hér um niðurgreiðslur í húshitun og 9% heimila í landinu kynda enn með rafmagni og kannski ekki mikil breyting á því hjá þeim heimilum þar sem eins og áður hefur komið fram að tækifærin í nýjum hitaveitum á köldum svæðum eru hverfandi og það er ólíklegt að unnt verði að koma upp hitaveitum á köldum svæðum þar sem strjálbýlt er og kostnaðarsamt að finna jarðhita og dreifa til notenda.

Hitaveita er mjög mikill, það má segja, lúxus. Ég man þá tíð þegar ég var að alast upp að það var ekki komin hitaveita á heimaslóðum mínum á Suðurnesjum og á mínu heimili var kynt með rafmagni. Mér eru minnisstæð öll þau vandamál sem hlutust af því varðandi baðvatn og annað því það tók oft sinn tíma að hita upp vatn til þess að það væri nægjanlega heitt vatn til þess að fara í bað.

Nú er öldin önnur og við sem búum svo vel að vera með hitaveitu þurfum svo sannarlega ekki að hafa áhyggjur af þessu. Þess vegna viljum við gjarnan gleyma því að fara vel með þessa auðlind. Eins og ég sagði hér áðan að þó svo að við eigum nægar orkulindir þá er ekki þar með sagt að við þurftum ekki að spara þær. Það borgar sig að fara vel með svona hluti. Að lokum vil ég segja að ég held að það væri ágætismál að fara í gegnum það að kenna Íslendingum að spara orku. Það sé nauðsynlegt til lengri tíma litið.