136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[01:31]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Hér eru haldnar margar tímamótamarkandi ræður um orkunýtingu í kvöld og ég fagna því auðvitað og er ákaflega ánægður með að heyra það á hv. þingmönnum sem hér hafa talað í kvöld að þeir ljúka miklu lofsorði á það frumvarp sem hér er til umræðu.

Ég varð satt að segja næstum því snortinn af því að heyra hv. þingmann sem hér talaði á undan greina frá því að þetta frumvarp leiddi til þess að menn mundu bæta orkunýtni og þess vegna mundi hún styðja það. Hv. þingmaður greindi líka frá því að þetta mundi skapa atvinnu og þess vegna mundi Sjálfstæðisflokkurinn styðja það og ég fagna því. Ég fagna öllum þeim sem vilja leggja góða hönd að verki og styðja iðnaðarráðherra í þeim efnum sem horfa til framtíðar.

Það kemur fram hjá þeim ágætu mönnum sem hér hafa talað fyrir Sjálfstæðisflokkinn í kvöld að þeir bara — með orðbragði Eyjamanna mundi maður segja að þeir mega vart vatni halda ánægju og fögnuði yfir þessu. Það er að vonum. Þetta frumvarp byggist á tilraunaverkefni úr kjördæmi hv. þm. Herdísar Þórðardóttur. Það miðar að því að geta hjálpað Vestmannaeyingum meðal annars til þess að fjármagna varmadælur í framtíðinni og þar fer nú fram tilraun undir forustu einnar af stofnunum iðnaðarráðuneytisins sem hefur starfsstöð í Vestmannaeyjum sem er á heimsmælikvarða. Ef það reyndist mögulegt, sem við teljum að sé hægt, að vinna varma hafsins til hagsbóta fyrir almenning í Vestmannaeyjum þá er líka hægt að gera það annars staðar.

Frú forseti. Ég velti því fyrir mér hvar hv. þm. Kristján Þór Júlíusson sé. Ég var beðinn sérstaklega að koma hingað til að eiga orðastað við hann. Ég veit í sjálfu sér að það er ósatt vegna þess að frumvarpið er skrifað af einni af þeim stofnunum sem hann hefur hvað mestan dyn og þokka á, þ.e. Orkusetrinu á Akureyri. (Gripið fram í.)

Ég spyr, frú forseti: Hvar er formaður þingflokks sjálfstæðismanna sem taldi það ákaflega brýnt að geta varpað til mín spurningum? Hún er ekki í salnum. Má ég biðja um að formaður þingflokks sjálfstæðismanna verði þegar í stað kallaður til fundarins. (Forseti hringir.)