136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[01:51]
Horfa

iðnaðarráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef jafnan, eftir því sem ég hef getað, lagt lið þeim sem hafa barist fyrir því að bæta hag ylræktarbænda. En mig langar að spyrja hv. þm. Kjartan Ólafsson: Hvar hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið í því efni síðustu 18 árin? Er það ekki Sjálfstæðisflokkurinn sem meira og minna hefur verið með það ráðuneyti sem vélar um umbúnað ylræktarbænda? Ég veit ekki betur. (Gripið fram í.) Nei, nákvæmlega landbúnaðarráðuneytið. Sjálfstæðisflokkurinn hefur farið með landbúnaðarráðuneytið og það er Sjálfstæðisflokkurinn sem eðlilega hefði átt að hafa frumkvæði að því að bæta haga ylræktarbænda með þeim hætti sem hv. þingmaður ræddi hér.

Ég spyr hv. þingmann: Hvernig í ósköpunum stendur á því að það er fyrst núna, eftir að hann er kominn í stjórnarandstöðu, sem hann vaknar upp við vondan draum og sér að á síðustu 18 árum hefur Sjálfstæðisflokkurinn ekki staðið í stykkinu að því er þetta varðar? Mig langar að spyrja hann að því. Hvernig stendur á því að hann kemur loksins auga á þetta núna eftir að hafa verið í ríkisstjórn og stutt landbúnaðarráðherra Sjálfstæðisflokksins? Ég man ekki eftir því að þessi ágæti þingmaður hafi haldið slíkar ræður yfir hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni þegar hann vélaði um þessi mál.

Hins vegar er rétt að halda því til haga að á síðasta ári voru veittar 100 millj. kr. aukalega til þess að greiða niður rafmagnsverð til ylræktarbænda og það var ekki iðnaðarráðherra sem hafði frumkvæði að því, það var hv. þingmaður og þáverandi landbúnaðarráðherra, Einar Kristinn Guðfinnsson, sem gerði það með miklum sóma. Hann lagði sömuleiðis til að á þessu ári væru 100 millj. kr. sérstaklega veittar til þess að greiða þetta niður. En það komu engar aðrar tillögur frá Sjálfstæðisflokknum.

Hv. þm. Kjartan Ólafsson hefur aldrei komið með neinar tillögur um málið. Svo kemur hann hingað og rífur sig niður í rass af því að hann fær þá dagskipan að standa hér í málþófi. Hvar voru tillögur hv. þm. Kjartans Ólafssonar á meðan hann var (Forseti hringir.) í stjórnarliðinu?