136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[01:58]
Horfa

Árni Johnsen (S):

(Gripið fram í: Hefst nú söngurinn. Nýtt lag.) Virðulegi forseti. Það er mikilvægt að staðna ekki í hinu þekkta heldur leita til hins óþekkta. Þar liggja möguleikarnir, væntingarnar og vonirnar. Þar liggja auðlindir sem eru óbeislaðar. Og við Íslendingar erum svo lánsamir að búa við djarfsækinn iðnaðarráðherra svo að þar er allra veðra von.

Ugglaust hefur hæstv. iðnaðarráðherra dottið í hug eins og mér að það væri til að mynda ástæða til þess að virkja „tungufall“ hæstv. fjármálaráðherra Steingríms J. Sigfússonar því að mikið afl hefur farið í súginn í „tungufalli“ þess ágæta manns í gegnum tíðina og sjaldan verið virkjað til góðs sérstaklega. En það kann að vera erfitt að nýta slíkt sem orkuskapandi þátt í landinu.

Það eru þó ákveðnir möguleikar, ákveðnar auðlindir sem eru vannýttar í umhverfi okkar og náttúru, þ.e. hafið, sjávarföllin og vindurinn. Það er ekkert smávegis afl sem býr í þessum þáttum íslenskrar náttúru.

Til að stikla á nokkrum atriðum var fyrir fáum árum byggð brú í Kolgrafarfirði sem breytti mjög samgöngum á Snæfellsnesi. Undir þessa brú renna sjávarföllin, aðfall og útfall frá firði innan brúar. Þar er feykilegt afl á ferðinni nætur og daga ár eftir ár óvirkjað. Á Breiðafirði eru straumrastir á sjávarföllum sem kögra margar eyjarnar. Þar er ótrúlegt afl óvirkjað. Við Vestfirði eru víða straumrastir sem menn hafa barist við í gegnum aldirnar á siglingu fyrir landi. En aldrei hefur verið lagt í að skoða til hins ýtrasta möguleika á að virkja þessar straumrastir.

Ein frægasta röstin er Látraröst við Látrabjarg á þröngu svæði sem væri ugglaust mjög spennandi svæði til þess að gera tilraunir til virkjana. Skammt frá Látrabjargi er Rauðisandur þar sem var bærinn Sjöundá og þau bjuggu þar Bjarni Bjarnason og Steinunn sem um getur í Svartfugli Gunnars Gunnarssonar, örlagasögu þeirra elskenda. Þar er líka orka í föllum út og suður.

Í Rauðsendingadansi Jóhannesar úr Kötlum um þau Bjarna og Steinunni segir, með leyfi forseta:

Úti fyrir dunar

hinn djúpblái mar:

eilíf er sorgin

í stóra hjartanu þar.

Við skulum dansa fram í dauðann.

Í öðru erindi:

Skepnan öll er getin í synd

og skapað er henni að þjást:

að fellur og út fellur

hatur og ást.

Við skulum dansa fram í dauðann.

Þetta er bara vísbending um að alls staðar eru öfl að verki og þar sem unnt er að virkja þau eigum við að beita okkur til hins ýtrasta. Álar og lænur eru í djúpfjörðum allt í kringum landið. Álar og lænur sem búa við straumbönd sem fara á margra mílna hraða á klukkustund.

Við Vestmannaeyjar, við Stórhöfða, við Faxasker, vestur á Skönsum við Heimaey, í Beinakeldu eru gríðarlega miklar straumrastir sem gæti verið fróðlegt að kanna virkjunarmöguleika á.

Vesturfallið við Suðurland gengur með allt upp í 15 mílna hraða á álnum milli lands og Eyja. Það er gríðarlegt orkufall sem er á ferðinni þar. Reykjanesröstin er eitt svæðið en kannski eitt það erfiðasta sem mætti beisla. Þetta undirstrikar að við eigum auðlindir sem við höfum ekki nýtt og ekki lagt í að nýta, ekki einu sinni lagt í rannsóknarþáttinn af neinu viti. Svo búum við Íslendingar við einna mestu möguleika í heiminum í fjölbreytni slíkra sjávarfalla, í röstum, í lænum, í straumum.

Við ættum að taka upp samstarf við Færeyinga í þessum efnum. Við ættum að sýna okkar vænu og góðu bræðrum í Færeyjum þá virðingu og þann metnað að taka upp samstarf við þá um mögulega virkjun á straumföllum milli eyjanna, straumföllum þar sem sjórinn skilur að eyjarnar átján. Og einnig þar geta straumrastirnar farið á sjávarföllum upp í 17 mílna hraða.

Það eru svo sterk straumbönd á siglingaleiðinni milli Færeyja að þeir þurfa að gefa út sérstök sjávarkort, straumkort, til þess að bátar sem eru á ferð séu ekki í stórhættu og kunna að varast leiðir straumbandanna. Þetta er allt óbeisluð orka og þess vegna væri mjög spennandi og hvetjandi að taka til hendinni við þessa möguleika.

Þess vegna vil ég hvetja hæstv. iðnaðarráðherra til þess að setja nú hrygg í málið og vera frumkvöðull í þessum efnum á okkar hlýju jörð, frumkvöðull í því að nota það sem maður getur kallað í þessum efnum eilífðarvélina, að virkja eilífðarvélina.

Eilífðarvélin og þyngdaraflið eru eitt og hið sama, það er bara spurning hvaða orð maður notar yfir það. Það eru öfl sem eru við fætur okkar. Af hverju ekki að reyna að beisla þau þó að þau virki ógnvænleg og erfið til að sækja í nýtingarsjóð þjóðarinnar?

Ég ætla ekki að ræða sérstaklega um annan þátt sem er ótrúlega óbeislaður við Ísland og það er vindaflið. Þrír vindasömustu staðir á jörðinni eru Suðurskautið, Keflavíkurflugvöllur og Stórhöfði í Vestmannaeyjum. (Gripið fram í.) Það eru þrjú öflugustu vindasvæðin með snörpustu vindana. Við höfum fylgst með því hvernig til að mynda Danir hafa virkjað vindaflið víða á ströndum við Danmörku. Af hverju ættum við ekki að skoða þann möguleika líka, til að mynda á ákveðnum svæðum suðurstrandar Íslands?

Ekki vantar nú vindana undir Eyjafjöllunum og allt er þetta óbeislað afl. Þetta er óbeislað afl sem spannar öll svæði landsins. Þess vegna getur það verið sérstaklega spennandi til að styrkja og efla mannlíf og búsetu á landsbyggðinni, efla þar fjárfestingu, framfarir og framþróun sem skjóta styrkum stoðum undir mannlíf um Ísland allt.

Við verðum að komast út úr ákveðnum höftum sem hafa verið að þrengja að. Það fer ekkert á milli mála í okkar ágætu höfuðborg að það er mikill undirliggjandi pirringur, þreyta, tortryggni og stundum leiði, umfram það sem þekkist og allt annað en þekkist úti á landsbyggðinni. Það er auðvitað áhyggjuefni því að þetta er nákvæmlega eins og þegar einhverri fjölskyldu líður ekki vel þarf að gera eitthvað. Þannig þarf nú að hlúa að höfuðborgarsvæðinu af því það fer ekkert á milli mála að því líður illa og hefur gert um árabil. En það er hlutur sem er á öðrum væng en möguleikar okkar í virkjunarauðlindunum sem eru svo ótrúlega öflugir og spennandi ef menn þora að ganga til verks og freista þess að nýta þetta afl. Það er engin spurning að það mun kosta einhver mistök um tíma því að með allri slíkri þróun hlaðast upp mistök en síðan kemur árangurinn.

Það er margt óunnið. Við höfum rætt um köldu svæðin og heita vatnið. Það er alltaf verið að hrekja kenninguna um köldu svæðin, síðast fyrir nokkrum vikum í Skaftafelli þar sem upp kom heitt vatn á ísköldu svæði við borun niður á 300 metra og nýtilegt vatn fyrir þjóðgarðinn og þá starfsemi sem þar er. Við skulum því aldrei segja aldrei þegar við ræðum um möguleikana á heitu vatni á Íslandi.

En þetta eru hlutir sem ég vil hvetja hæstv. iðnaðarráðherra, sem aldrei hefur verið verkkvíðinn maður í neinu í neinu er lýtur að framförum, til þess að taka upp og fylgja eftir fast og ákveðið.