136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[02:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég hlýt að gagnrýna það að ég sé í einhverju málþófi. Ég er ekki í neinu málþófi heldur er ég að ræða atriði sem virðist ekki hafa skilist í 1. umr., a.m.k. skildi formaður nefndarinnar ekki það sem ég var að fara og ætla ég þá að reyna að útskýra það betur. Ég sé ekki formann nefndarinnar, er hann hugsanlega farinn?

Það sem ég nefndi var að í Sovétríkjunum voru menn með alls konar niðurgreiðslur út og suður, þ.e. verðið sem menn borguðu fyrir vöru og þjónustu var ekki í neinu samræmi við framleiðslukostnaðinn. Því var í rauninni um að ræða niðurgreiðslu og öll eðlileg verðmyndun hvarf. Þannig gerðist það að farið var út í virkjanir, framkvæmdir og annað slíkt sem engan veginn stóðu undir sér, það gat kannski verið dýrara að flytja kolin á milli staða en verðmæti kolanna var.

Við erum í þeirri stöðu að raforkan er greidd niður eftir óskaplega flóknum reglum. Það eru mælagjöld og hitt og þetta. Ég hef reynt að setja mig inn í hvernig það er uppbyggt, en þetta er mjög flókið og mér sýnist að virðisaukaskattsútreikningurinn sé óleysanlegur. Það segja mér a.m.k. þeir sem þurfa að reikna hann út, að ekki sé hægt að leysa það stærðfræðivandamál og þeir hafa grátbeðið um að það verði einfaldað.

Fyrst er orkan niðurgreidd, þ.e. raforkan, eingöngu raforkan, ekki önnur orka, og svo þarf að niðurgreiða samkeppnisorku eins og hitaveitu sem hugsanlega færi í gang og annað slíkt með afskaplega flóknum reglum, stofnkostnaður er borgaður sem nemur sjö ára niðurgreiðslu o.s.frv. Mér skilst að bændur sem eru með heimaveitur, rafveitur, fái líka niðurgreiðslu á stofnkostnaði og öðru slíku, þetta er svo flókið að það er með ólíkindum, í stað þess að horfa bara á dæmið heildstætt ofan frá og segja: Við styrkjum hvert heimili. Mér skilst að um 10 þúsund heimili séu í þessari stöðu, tæplega 30 þúsund manns, um 10% af heimilum í landinu. Styrkurinn er um milljarður þannig að þetta mundi vera svona 100 þús. kr. á hvert heimili.

Samkvæmt upplýsingum sem ég fékk kostar um 60 þús. kr. að hita hús í Reykjavík og eftir niðurgreiðslu kostar 150 þús. kr. að hita hús á Skagaströnd. Þetta var svar frá hæstv. iðnaðarráðherra við fyrirspurn hv. þm. Jóns Bjarnasonar núna í vetur. Það þýðir að það kostar í rauninni samkvæmt þessum grófu útreikningum mínum um 250 þús. kr. að hita húsið á Skagaströnd. Þá er spurningin hvort íbúarnir mundu ekki fara á fleygiferð, ef það kostar 250 þús. kr. að hita húsið, að finna einmitt þær lausnir sem er verið að niðurgreiða með þessu frumvarpi, þ.e. varmadælur, betri einangrun, finna og virkja vindorku eða fara bara einhverjar aðrar leiðir til að ná kostnaðinum niður, nota t.d. útblástur á húsinu, þ.e. þegar loftað er út sé það loft notað til að hita loftið sem kemur inn, það er líka til kerfi utan um þetta. Ég nefndi varmadælur og sitthvað fleira sem hægt er að nota.

Þetta gera menn allt saman þegar þeir þurfa að borga 250 þús. kr. á ári fyrir húshitun en gera það kannski ekki ef þeir borga 150 þús. kr. Þá leita menn síður að slíkum kostum. Ég vil að menn skoði það hreinlega að fara einföldu leiðina, að styrkja hvert heimili, finna út annaðhvort stuðla eftir flatarmáli eða íbúafjölda eða eitthvað slíkt. En þá segja menn að fólk fari að skrá sig sem íbúa. Þjóðskráin á að geta fylgst með því að fólkið búi á staðnum sem mundi njóta niðurgreiðslunnar.

Ég vildi koma þessu á framfæri vegna þess að mér finnst menn ekki hafa skilið þessa hugsun. Þetta mundi gera kerfið allt saman miklu, miklu einfaldara. En, herra forseti, það sem næðist ekki fram væri raforkusala frá Rarik og öðrum raforkuveitum sem selja orkuna. Þær njóta þess nefnilega að til að menn fái styrkinn, þennan hundraðþúsundkall á heimili, verða þeir að kaupa raforku, þeir fá styrkinn ekki ella. Þetta er einmitt það sem liggur oft að baki því að menn búa til styrkjakerfi, þ.e. að geta selt vöru sína. Þess vegna er það mjög varasamt að fela þeim aðilum sem standa í því að selja orkuna eða vöruna að búa til kerfin um niðurgreiðsluna.

Ég ætla að vona að það hafi skilist í þetta skiptið hvernig ég hugsa þetta kerfi og ég mundi gjarnan vilja að hv. iðnaðarnefnd tæki þá hugsun til umfjöllunar og athugaði hvort þetta væri ekki miklu einfaldara, fyrir utan það að raforka til húshitunar hefur hækkað undanfarin ár töluvert umfram verðlag. Þrátt fyrir niðurgreiðsluna fer kostnaðurinn síhækkandi sem er sennilega vegna þess að orkan er niðurgreidd og menn þurfa ekki að halda eins mikið í — það er svo lítil samkeppni og lítið kostnaðareftirlit og kostnaðaraðhald vegna þess að góður hluti af orkunni er borgaður af ríkinu. Þetta er allt saman þekkt. Þetta var þekkt í Sovétríkjunum og þetta er þekkt alls staðar þar sem um niðurgreiðslu er að ræða og ætti að vera þekkt líka á Íslandi.

Ég skora því á formann nefndarinnar að skoða það að fara út í svona dæmi. Ég get svo sem líka búið til þingsályktunartillögu þar sem Alþingi skorar á nefndina að fara út í þá vinnu að skoða að vera með beingreiðslur eða búsetustyrki til íbúa á köldum svæðum, sem kæmi miklu betur út og mundi væntanlega valda því að meiri hvati yrði til þess að fólk leitaði að ódýrari lausnum, frekar en að ríkið sé í rauninni fyrst að niðurgreiða orkuna og svo að niðurgreiða leit fólksins að ódýrari orkugjöfum. Fyrir utan það að menn nýta þá ekki aðra möguleika eins og sjávarfallavirkjanir, vindorku o.s.frv. Varmadælur væri alveg rakið að nota t.d. í Grímsey þar sem er stutt í sjó vegna þess að þær þurfa einhvers staðar jafnan hita til að nota til að ná í orkuna. Þær virka jú eins og öfugur ísskápur, þær hita í staðinn fyrir að kæla. Ísskápurinn þarf að ná hitanum út með því að kæla með kælielementum aftan á ísskápnum, hann hitar í rauninni rýmið í kringum sig á meðan varmadæla hitar húsið en kælir umhverfið og þess vegna þarf að vera ákveðin orka þar, varmaorka, sem er dælt inn í húsið.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Ég ætlaði bara að koma með þessa hugmynd aftur af því að hún virðist ekki hafa skilist.