136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[02:24]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég fór í þessa umræðu í kvöld af því að þessa er ekki getið hið minnsta í nefndaráliti nefndarinnar og þess vegna taldi ég að menn hefðu bara ekki skilið málið, en það getur vel verið að hv. þingmaður hafi skilið þetta til fullnustu. Ég held hins vegar að menn séu mjög litaðir af þeirri stöðu sem er í dag. Menn þekkja kerfið eins og það er í dag, þeir taka því sem gefnu og geta ekki séð breytingar á því. Það er því miður mjög oft þannig ef menn búa við ákveðin kerfi.

Ég nefndi t.d. örorkulífeyriskerfið á Íslandi, þar er talað er um 75% örorku. Mjög margir geta ekki séð fyrir sér kerfi eins og er í Þýskalandi og víðast hvar annars staðar sem byggir bara á allt, allt öðrum prinsippum, menn geta hreinlega ekki séð það af því að þeir eru svo samdauna og vanir því kerfi sem þeir búa við og hafa ætíð búið við.

Það kerfi sem við búum við í sambandi við niðurgreiðslu á raforku til húshitunar er mjög gamalt og hefur verið mjög lengi við lýði en menn sjá bara þetta kerfi og virðast ekki vilja sjá, og skilja kannski ekki, aðrar lausnir. Svo getur vel verið að einhver galli sé í þessari lausn minni en ég minni bara á að svona niðurgreiðslukerfi þar sem menn eru farnir að niðurgreiða hitaveitur á móti vegna þess að raforkan er niðurgreidd hlýtur að kveikja eitthvert ljós hjá mönnum þegar þeir sjá hversu óskaplega flókin kerfi þeir eru að búa til. Þetta er alveg ótrúlega flókið.