136. löggjafarþing — 123. fundur,  2. apr. 2009.

visthönnun vöru sem notar orku.

335. mál
[02:30]
Horfa

Frsm. iðnn. (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Við erum í 3. umr. um frumvarp til laga um visthönnun vöru sem notar orku. Um þetta var rætt nokkuð ítarlega við 2. umr. og í kjölfar þess var óskað eftir því að málið kæmi aftur til nefndar. Ástæðan var sú að menn vildu, þingflokkur Sjálfstæðisflokksins, að farið væri betur yfir orðalag og orðanotkun og hugtakanotkun í frumvarpinu.

Nefndin fór yfir málið að nýju og sá ekki ástæðu til að gera frekari breytingar en gerðar voru á orðalagi við 2. umr. málsins og skilar því ekki sérstöku nefndaráliti. Engu að síður var það jákvætt að við skyldum fá málið til nefndarinnar vegna þess að við nánari skoðun kom í ljós að í 11. gr. frumvarpsins kemur fram að við meðferð mála vegna brota á ákvæðum laganna eða reglugerðum settum samkvæmt þeim skuli fara að hætti opinberra mála. Þann 1. janúar tóku hins vegar gildi lög nr. 88/2008, um meðferð sakamála, sem námu úr gildi lög um meðferð opinberra mála. Með lögunum var grundvallarhugtakinu „opinber mál“ breytt í sakamál og með hliðsjón af þessu leggjum við í nefndinni til breytingar á 11. gr. frumvarpsins í þá veru að þar segi:

„Síðari málsliður 11. gr. orðist svo: Um meðferð slíkra mála fer samkvæmt lögum um meðferð sakamála.“ — En ekki opinberra mála eins og áður var.