136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

breytingar á stjórnarskrá.

[11:19]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég hafna því alfarið að Sjálfstæðisflokkurinn sé að tefja afgreiðslu brýnna mála. Því miður var dagskrá dagsins í gær þannig saman sett að þar var að uppistöðu til að finna þingmannamál og önnur mál sem varða ekki það sem brýnt er að verði afgreitt hér á þinginu. (Gripið fram í.) Sem betur fer er forsætisnefnd þingsins aðeins að átta sig á þessu vegna þess að nú fáum við í fyrsta sinn dagskrá í dag þar sem er að finna mál sem hafa eitthvað með þetta að gera en vandinn er sá að á undan er stillt upp aðalágreiningsmálinu á þinginu, stjórnarskipunarlögunum, og ég get ekki skilið hæstv. forsætisráðherra öðruvísi en svo að hann hyggist beita sér fyrir breytingum á stjórnarskránni í ágreiningi hér í þinginu í stað þess að nýta tímann í brýn mál.

Ég skora á hæstv. forsætisráðherra að fella úr stjórnarskrármálinu öll ákvæði önnur en 79. gr. til þess að við getum farið hér að ræða það sem brýnt er að gert verði fyrir heimili og fyrirtæki.