136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

breytingar á stjórnarskrá.

[11:20]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það vill svo til að fjórir flokkar hér á Alþingi eru sammála um það að breyta stjórnarskránni í fjórum meginatriðum. (Gripið fram í.) Hvers vegna í ósköpunum eiga þessir fjórir flokkar, sem hafa hér meiri hluta, að fallast á þá einu breytingartillögu sem Sjálfstæðisflokkurinn vill gera í þessu máli og láta þar við sitja? Mér finnst það bara ekki koma til greina. Þetta eru mál, eins og ég sagði hér áðan, sem hafa verið mikið rædd af stjórnmálaflokkum gegnum árin en þingið hefur aldrei getað klárað þessi mál. Það getur vel verið að við stöndum bara frammi fyrir því að það þurfi að afgreiða stjórnarskrána — sem er óvanalegt, ég viðurkenni það — án þess að allir flokkar séu sammála um það.

Auðlind í þjóðareign er t.d. mjög mikilvægt að ná hér fram. Það er líka mjög mikilvægt að ná hér fram þjóðaratkvæðagreiðslunni og mál sem við höfum lagt áherslu á líka sem er stjórnlagaþingið. Við höfum komið verulega til móts við Sjálfstæðisflokkinn (Forseti hringir.) sem vill ekki sjá þær lýðræðisumbætur sem (Gripið fram í.) við viljum ná fram á stjórnarskránni, (Forseti hringir.) sem fólkið í landinu vill — (Gripið fram í.) Sjálfstæðisflokkurinn stendur einn eftir (Forseti hringir.) að vilja ekki lýðræðisumbætur á stjórnarskránni.