136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

niðurgreiðslur húshitunarkostnaðar.

397. mál
[11:39]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni mjög merkt mál í sama anda og fyrra mál sem hér var rætt. Ber að fagna því að hæstv. iðnaðarráðherra lagði leið sína í þingsal í nótt til að efna til skoðanaskipta um málið. Þetta tekur til 9% heimila landsins. Menn eru að þreifa sig inn á aðrar brautir því að það liggur fyrir að farið er að draga úr möguleikum þess að hita upp þéttbýli með hitaveitu og þá verðum við að leita annarra leiða.

Athugasemd sem kom við þetta frumvarp við 2. umr. laut að því að menn óttuðust að það drægi úr niðurgreiðslum til þeirra sem þeirra nytu í dag. Í því nefndaráliti sem hér liggur fyrir er það ítrekað að svo er ekki og því ber að fagna að um þetta mál er mikil og góð samstaða.