136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[11:44]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég á ekki von á því að mál sem góð samstaða hefur ríkt um fái hér skjóta afgreiðslu frekar en hingað til. Við höfum ekki verið að ræða eitt einasta ágreiningsmál í þinginu undanfarna daga. Það er samstaða um mál úr nefndum — allir fulltrúar allra flokka — samstaða um nefndarálit og allt á hreinu. (Gripið fram í.) Engu að síður hafa við 3. umr. hafist langar einræður um þessi mál eins og um eitthvert ósætti væri að ræða.

Mitt erindi að öðru leyti í þennan ræðustól, herra forseti, er að vekja athygli á því að ég á eftir að fá tóm til að skrifa og gera minnihlutaálit vegna 9. dagskrármálsins og óska eftir að tekið verði tillit til þess að það megi ná útbýtingu áður en það mál kemur til umræðu.