136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[11:53]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það liggur ljóst fyrir að við sjálfstæðismenn viljum ræða önnur brýnni mál en stjórnarskrána, sem verður greinilega afgreidd í miklu ósamkomulagi. En það liggur líka fyrir að forseti þingsins á að hugsa annars vegar um þingið og virðingu þess og hins vegar um þjóðina. Hann hefur nú ákveðið að við eigum ekki að ræða mál sem snerta þjóðina og hagsmuni hennar beint. Forsetinn hefur ákveðið að forgangsraða dagskránni þannig að atvinnumálin eru síðar á dagskránni. (Gripið fram í.) Forseti þingsins hefur annars vegar ákveðið það (Gripið fram í.) og hins vegar að forgangsraða stjórnlagaþinginu og breytingu á stjórnarskránni. Hvað þýðir stjórnlagaþingið? (Gripið fram í.) Stjórnlagaþingið þýðir að verið er að rýra völd þingsins, það er verið að rýra virðingu þingsins, það er verið að taka frá þinginu helsta tæki þess, sem er að setja og samþykkja stjórnarskrá. Núverandi forseti þingsins verður að gera sér grein fyrir því að hann er ekki bara upp á punt heldur á hann að standa vörð um stjórnarskrána, hann á að standa vörð um þingið og hann á að standa vörð um atvinnusköpun fyrir þjóðina. (Gripið fram í: Hann er forseti allra þingmanna.)