136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[11:57]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil lýsa því yfir að forsetinn stendur sig með eindæmum vel í því sem hér á sér stað.

Virðulegi forseti. Ég er sammála sjálfstæðismönnum hvað það varðar að öll þau mál sem eru á dagskrá frá 5–9 eru afar brýn. Hv. sjálfstæðismenn hafa komið hér upp og sagst ætla að ræða stjórnarskrána og stjórnarskrárbreytingar mjög mikið. Ég er sammála því. Hv. þingmenn hafa líka sagt að þau efnahagsmál sem síðar eru á dagskránni séu mikilvæg og ég er sammála því. Á hinn bóginn verð ég að segja eins og er að það kemur mér á óvart að hv. þingmenn, þ.e. minni hluti þingsins, skuli tala á þann hátt að þeir eigi skilyrðislaust að hafa dagskrárvald yfir þinginu. Hæstv. forseti hefur sett fram dagskrá með mjög mikilvægum málum. Vel má vera að einhverjir þingmenn telji að númeraröð hefði átt að vera á annan hátt en allt eru þetta afar mikilvæg mál og mikilvægt að þau komist í umræðuna. (Gripið fram í.) Það er mikilvægt að sjónarmiðin fái að heyrast (Forseti hringir.) og það er mikilvægt, virðulegi forseti, að hægt sé að hefja (Forseti hringir.) þessa umræðu. (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Það er meginatriðið, herra frammíkallari.