136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:00]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Það er alveg ljóst að þegar hæstv. forseti raðaði upp dagskránni gerði hann það í þeim anda sem um var rætt á fundi með þingflokksformönnum. Þar vildu allir þingflokksformenn byrja á stjórnarskrármálinu, setja það fyrst á dagskrá, (Gripið fram í: Allir?) nema þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins. (Gripið fram í.) Á þá þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins að ráða dagskránni? Það gengur ekki upp, virðulegur forseti, þannig að þetta er bara útrætt varðandi þann fund. (Gripið fram í.) (Gripið fram í: … keyra í …) (Gripið fram í: … valta …)

Sjálfstæðisflokkurinn stýrir ekki dagskrá þingsins hér lengur, virðulegur forseti, en hann sóttist eftir tvöföldum ræðutíma um stjórnarskrármálið sem var ósköp eðlilegt. Þingflokkar eiga rétt á því og við förum í tvöfaldan ræðutíma. En það sem verður fróðlegt að sjá (Forseti hringir.) er hvað eðlilega löng umræða þýðir hjá Sjálfstæðisflokknum. (Forseti hringir.) Hvað þýðir það? Að sjálfsögðu ræðum við þetta mál en (Forseti hringir.) við vonumst til þess að sjá ekki málþóf því að þá komast hin málin ekki á dagskrá sem eru þar á eftir. (Gripið fram í: Hvað þýðir málþóf?)