136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:13]
Horfa

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég ítreka að það eru mjög mikilvæg mál á dagskránni í dag. Þau eru það öll.

Mér reynist hins vegar dálítið erfitt að skilja hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins í þessari umræðu vegna þess að þeir voru tilbúnir til þess fyrir tæpum tveimur sólarhringum að gera neyðarlög um gjaldeyrismál að einhvers konar skiptimynt fyrir stjórnarskrármálið. Þeir gerðu ákveðna kröfu um ákveðna tilhliðrun í því máli svo að þeir mundu veita afbrigði. Svo mikilvægt var stjórnarskrármálið. (Gripið fram í.) Í annan stað hafa þeir líka óskað eftir tvöföldum ræðutíma, svo mikilvægt er stjórnarskrármálið. Þegar það kemur á dagskrá, virðulegi forseti, (Gripið fram í.) forðast þeir umræðuna.

Það er ekki nema von, virðulegi forseti, að maður eigi dálítið erfitt með að skilja þennan málflutning. Ég held að það sé afar mikilvægt að við getum hafið umræðuna um stjórnarskrárbreytingarnar og síðan farið í efnahagsmálin í kjölfarið. Allt eru þetta afar mikilvæg mál. Við hreyfumst hins vegar ekkert úr stað ef við stöndum hér og þrefum (Forseti hringir.) um fundarstjórn forseta sem að mínu mati er með afbrigðum góð.