136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:15]
Horfa

Frsm. minni hluta stjórnarskrárn. s. (Björn Bjarnason) (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. Ég lýsi undrun minni yfir því að hæstv. forseti hefur ekki orðið við óskum um að gera hlé á fundinum til þess að reyna að greiða úr þeim vanda sem við stöndum frammi fyrir. Það er alveg ljóst að þetta mál leysist ekki nema virðulegur forseti taki á málinu, ræði það og leiti lausna á því.

Við sjálfstæðismenn höfum beðið um lengri ræðutíma og við höfum hvað eftir annað lýst því yfir í þessum umræðum að við ætlum okkur að taka langan tíma í að ræða stjórnarskipunarmálin enda er það eðlilegt miðað við eðli þeirra og miðað við það hvernig að málum hefur verið staðið.

Við bendum hæstv. forseta á að það þarf að greiða fyrir því að mál sem eru annars eðlis og miklu brýnni fyrir fjölskyldur og fyrirtæki í landinu fái forgang á dagskránni í dag til þess að þau megi afgreiða, af því að við höfum í huga að ræða mjög lengi um stjórnarskrármálið og höfum beðið um lengri ræðutíma til þess. Hæstv. forseti hefur þau tilmæli okkar að engu að breyta dagskránni og lætur undir höfuð leggjast að verða við óskum um að halda (Forseti hringir.) fund til þess að leysa málið.