136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:19]
Horfa

Dögg Pálsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir lagði hér fram tillögur til forseta um að breyta dagskrárröðun í dag til þess að koma mætti að umræðu um mjög brýn mál, mál sem snerta fólkið í landinu og mál sem fólkið í landinu bíður eftir afgreiðslu á. Þess í stað er stjórnarskrármálið sett fyrst sennilega, miðað við þá umræðu sem hér er, fyrst og fremst til að stríða sjálfstæðismönnum, það er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi.

Það liggur fyrir að málið var knúið og neytt út úr nefnd í gær í fullri andstöðu við sjálfstæðismenn. Við erum hér með umsagnir frá tugum einstaklinga og aðila sem vara við því að breyta stjórnarskránni með þessum hætti. Hér ætlar naumur meiri hluti þingsins að koma fram við stjórnarskrána eins og hvert annað ómerkilegt plagg. Stjórnarskráin er grundvallarlög og það hefur verið venja að henni sé breytt í samvinnu við alla (Forseti hringir.) stjórnmálaflokka. Það er til verulegs vansa fyrir þann (Forseti hringir.) meiri hluta sem hér er að ætla að standa svona að málum.