136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:20]
Horfa

Árni M. Mathiesen (S) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er bara ekki alveg í lagi hvernig menn hugsa þessar umræður hér um stjórnarskrána. Það er eins og menn telji að þeir geti rumpað þeim af og helst skotið þeim á milli umræðu um önnur mál og önnur dagskráratriði. Við 1. umr. var umræðan klofin upp þannig að fulltrúi Sjálfstæðisflokksins komst ekki til þess að flytja mál sitt á fyrsta degi umræðunnar.

Nú er verið að leggja upp með það að hefja umræðuna hér í dag og þá á fyrst að kljúfa umræðuna upp með því að gera hádegishlé og síðan á að kljúfa umræðuna upp með því að vera með utandagskrárumræðu. Ég held það væri affarasælast ef hæstv. forseti færi að ráðum hv. þm. Ragnheiðar Elínar Árnadóttur og flýtti hádegishléinu og héldi þá fundinn og hefði þá betri samfellu í umræðunni um málið.