136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:24]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðuleg forseti. Eins og bent hefur verið á er afar óheppilegt að taka umræðu um jafnmikilvægt mál og stjórnarskrána í mörgum hlutum og hv. þm. Árni M. Mathiesen fór vel yfir það.

Ég vil leyfa mér að horfa á þetta mjög praktískt. Núna er klukkan orðin 27 mínútur yfir 12 og við (Gripið fram í.) bíðum hér eftir — framsögumaður nefndarinnar, sem talar fyrir nefndarálitinu, hefur 60 mínútur til þess að mæla fyrir nefndarálitinu sem er upp á einar 6 bls. Ég veit ekki hvort hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir kæri sig yfirleitt um að slíta nefndarálit sitt og framsöguræðu í marga parta. Ég leyfi mér að halda að þetta hljóti að vera mjög merkileg ræða frá formanninum. Það er því ómögulegt að hún sé flutt hér í mörgum hollum. (Forseti hringir.) Ég ítreka því mitt ágæta sáttatilboð til forseta og vil biðja (Forseti hringir.) hann um að gefa mér álit sitt á þeirri hugmynd að flýta matarhléinu.