136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:31]
Horfa

Guðfinna S. Bjarnadóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég er nú ekki nefndarmaður í þeirri nefnd sem fjallað hefur um breytingar á stjórnarskipunarlögum en mér skilst að umsagnaraðilar séu mjög mótfallnir því, flestir hverjir, að gengið sé í þær breytingar sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Ég verð að segja að mér finnst vinnubrögðin vera ólýðræðisleg. Það passar ekki að þegar svokallaðar lýðræðisumbætur eiga að fara fram í svo stórum stíl sem við erum að tala um núna séu vinnubrögðin ólýðræðisleg.

Ég verð líka að minna okkur á að við erum eins og molbúar við Íslendingar þegar við ræðum nú rétt fyrir kosningar um að breyta grundvallarplagginu, því sem við stöndum öll á. Ég er reyndar fylgjandi því að breyta stjórnarskránni, en ekki með þeim vinnubrögðum sem viðhöfð eru. Ég er fylgjandi miklum lýðræðisumbótum og ég er ekki (Forseti hringir.) andvíg ráðgefandi (Forseti hringir.) stjórnlagaþingi, en ég er (Forseti hringir.) svo ósátt við það sem er að gerast hér á þinginu núna að (Forseti hringir.) mig svíður undan því.