136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

stjórnarskipunarlög.

385. mál
[12:39]
Horfa

Björk Guðjónsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Mér finnst ákaflega sérkennilegt hvernig minnihlutastjórnin raðar málum á dagskrána. Mér finnst það skipta gríðarlega miklu máli að þetta stóra hagsmunamál okkar Suðurnesjamanna, frumvarpið um álverið í Helguvík, komist hér á dagskrá.

Veit hæstv. forseti ekki að mesta atvinnuleysið á landinu er á Suðurnesjum? Íbúar á Suðurnesjum eru einhuga um það að fá álver á svæðið og bíða nú spenntir eftir því að umræðan fari af stað hér í þinginu um þetta mál og það nái fram að ganga á þessu þingi. Íbúar á Suðurnesjum óttast að ef þetta mál nær ekki fram að ganga á þessu þingi og Vinstri grænir komast í stjórn á næsta þingi verði þetta mál slegið af. Ég tel það afar brýnt, hæstv. forseti, (Forseti hringir.) að þetta mál verði nú þegar tekið til umræðu hér.