136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

uppbygging atvinnulífs og staða ríkissjóðs.

[14:10]
Horfa

Karl V. Matthíasson (Fl):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Birki J. Jónssyni fyrir að hefja þessa umræðu. Hv. þingmaður talaði um námsmenn sem væru atvinnulausir og eru að koma úr skólunum. Ég vil bara segja í því tilefni að þegar ég var í Háskóla Íslands að læra guðfræði fór ég á hverju vori vestur að Hellnum til að róa á minni trillu og var á skaki þar. Ég vil bara hvetja til þess að menn gefi frjálsar handfæraveiðar því að mörg hundruð manns gætu fengið vinnu við það að hrinda bátum úr vör sem eru algjörlega verkefnalausir, græjurnar, tækin, þekkingin og allt er fyrir hendi, en það má ekki leyfa nokkrum mönnum og þó að það væru tvö, þrjú hundruð manns að veiða á skaki af því að það er búið að loka sjávarútvegskerfinu alveg. Nei, við skulum frekar láta þá sem þetta geta vera atvinnulausa því að fiskveiðstjórnarkerfið okkar er heilagt. Þetta er eitt af því fyrsta sem við gætum gert og það mundi líka skapa von, það mundi skapa öryggi og gleði í mörgum sjávarbyggðum ef við færum út í þessa einföldu aðgerð. Ég nefni bara þetta sem dæmi.

Mig langar til að nefna annað. Það væri hægt að lækka verð á rafmagni til þeirra sem eru með gróðurhús. Norðmenn eru farnir að spyrja um það hvort Íslendingar geti selt þeim grænmeti. Það gefur gjaldeyri, það gefur vinnu og margar konur sem eru atvinnulausar og hafa unnið í bönkum og öðru gætu örugglega hugsað sér að koma að slíkri atvinnu. Ég gæti talið upp lengi en sekúndurnar sem ég á eru fáar eftir, átta og núna sjö svo ég læt máli mínu lokið.