136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

uppbygging atvinnulífs og staða ríkissjóðs.

[14:17]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hérna utan dagskrár um uppbyggingu atvinnulífs og stöðu ríkissjóðs. Þetta er grundvallarmál og dæmi um mál sem við eigum einmitt að ræða á hinu háa Alþingi og reyndar alls staðar í þjóðfélaginu, sérstaklega núna þegar 23 dagar eru til kosninga og okkur sem erum fulltrúar ólíkra sjónarmiða í stjórnmálum ber skylda til að greina fólkinu í landinu frá þeim ólíku sjónarmiðum sem við stöndum frammi fyrir í þessum málum.

Hæstv. fjármálaráðherra talaði áðan um þær aðgerðir sem ríkisstjórnin er að vinna vegna atvinnumála. Þær aðgerðir voru allar á kostnað ríkisins og hvergi minntist hæstv. ráðherra á orðið atvinnusköpun. Þetta sýnir mér best að hér er einfaldlega á ferðinni hugmyndafræðilegur ágreiningur. Kosningabaráttan og þau vandamál sem við stöndum frammi fyrir núna eru gamaldags hægri/vinstri ágreiningsmál sem er mjög mikilvægt að við ræðum opinskátt fyrir kosningar.

Vinstri menn reyna að láta líta svo út sem þeir beri hag atvinnulífsins fyrir brjósti núna, 23 dögum fyrir kosningar. Hið rétta er að eina hugmynd vinstri manna, og vinstri grænna sérstaklega, um atvinnulífið er að þar sé á ferðinni mögulegur skattstofn fyrir hressilegar skattahækkanir, svo ég noti hugtak ráðuneytisstjórans í fjármálaráðuneytinu, aðalskattasérfræðings ríkisstjórnarinnar eftir því sem mér best skilst, hressilegar skattahækkanir. Það er þannig sem vinstri grænir líta á atvinnulífið, sem mögulegan skattstofn.

Nei, atvinnumálin eru mikilvægustu málin sem við eigum að fjalla um hérna. Við eigum að nota tækifærin sem eru allt um kring og við eigum ekki þvælast fyrir þeim eins og flokksmenn Vinstri grænna hafa t.d. gert í því máli sem sú sem talaði á undan mér nefndi, Helguvíkurmálinu. Ég vona sannarlega að við komum til með að ræða það (Forseti hringir.) strax á eftir og koma því í gang. Það er dæmi um atvinnumál (Forseti hringir.) sem kemur með lausnir en ræðst ekki að (Forseti hringir.) hluta af vandanum.