136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

uppbygging atvinnulífs og staða ríkissjóðs.

[14:22]
Horfa

Grétar Mar Jónsson (Fl):

Frú forseti. Vandamálið sem við búum við um þessar stundir er alveg augljóst, 18.000 manns á atvinnuleysisskrá og horfir illa fram á við næstu vikur og mánuði. Það sem við getum gert er að nýta betur sjávarauðlindina okkar, við getum aukið veiðar með ýmsum hætti og aukið gjaldeyristekjur þjóðarinnar, sennilega um 70–80 milljarða, án þess að taka nokkra áhættu.

Við í Frjálslynda flokknum höfum lagt til að innkalla allar veiðiheimildir sem gætu gefið þjóðinni tekjur. Við höfum lagt til að hafa frjálsar handfæraveiðar sem hægt væri að gera 1, 2 og 3, strax og þar af leiðandi skapa bæði atvinnu og gjaldeyristekjur.

Það er ekki bara í sjávarútvegi sem við getum sparað og aukið gjaldeyristekjurnar, við getum sparað gjaldeyri í landbúnaði. Við getum komið á fót graskögglaverksmiðju og áburðarverksmiðju. Við getum aukið kornrækt og garðyrkju, ég tala nú ekki um með því að semja þar um lægra raforkuverð.

Við höfum ýmsa möguleika. Við getum leyft heimaslátrun sem skapar auknar tekjur heima í héraði eða á býlum landsins. Síðan er ferðaþjónustan sem við getum aukið með ýmsum hætti. Ýmis afþreying tengist ferðaþjónustunni, m.a. frístundaveiðar. En þá eigum við ekki að íþyngja frístundaveiðum með því að kvótasetja upp á 40 millj. kr. á ári þær veiðiheimildir sem frístundaveiðimenn þurfa að fá.

Hvalveiðar getum við og ætlum að hefja og síðast en ekki síst getum við aukið viðhald á fiskiskipaflotanum (Forseti hringir.) okkar með ýmsum öðrum hætti. Við getum líka sparað peninga með því að setja ekki í (Forseti hringir.) tónlistarhúsið 14–20 milljarða.