136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

uppbygging atvinnulífs og staða ríkissjóðs.

[14:24]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Ég þakka þessa umræðu. Við ræðum hér mikilvægt mál sem snertir sérstaklega atvinnumálin, hag heimilanna og fyrirtækjanna í landinu og við eigum að ræða slík mál á vettvangi þingsins.

Mér fannst hins vegar hæstv. fjármálaráðherra vera örlítið pirraður, greinilega, á ræðu minni. Hann nefndi í því samhengi að þetta væru hálfgerð kosningaloforð Framsóknarflokksins. Til þessarar umræðu er stofnað með það að markmiði að hefja umræðu á vettvangi þingsins og hvort við getum ekki komið okkur upp úr skotgröfum með því að sammælast um einhverjar raunverulegar aðgerðir til hjálpar heimilunum og fyrirtækjunum í landinu.

Þúsundir íslenskra heimila eru í dag með neikvætt eigið fé. Þúsundir íslenskra heimila eru þar með talin tæknilega gjaldþrota. Það er ekkert grín, hæstv. forseti, þegar fólk missir atvinnuna og er í stórskuldugu húsnæði. Ætlum við að koma til móts við þetta fólk með því að koma hjólum atvinnulífsins af stað á ný? Ég get nefnt Helguvíkurdæmið á Reykjanesi. Ég get nefnt sem dæmi 300 störf á Reykjanesi við mögulega uppbyggingu heilbrigðisþjónustu þar. Vilja menn stuðla að því og skoða þann möguleika? Það er 13,5% atvinnuleysi á Suðurnesjum og auðvitað þurfum við að skoða þessi mál en mér finnst við þurfa að hífa okkur upp úr því hjólfari að þótt hugmyndir komi frá tilteknum flokkum þurfi þær ekki að vera vitlausar.

Ég vil segja það, hæstv. forseti, að frambjóðendur Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokks hafa akkúrat líkt og við frambjóðendur Framsóknarflokks talað fyrir flatri niðurfellingu, talað jafnvel fyrir kostnaðarmeiri leiðum en Framsóknarflokkurinn hefur lagt til. Um leið og ég lýk þessari umræðu hér fyrir hönd okkar framsóknarmanna vil ég segja að Framsóknarflokkurinn er til í að koma að þessum erfiðu málum en við þurfum þá jafnframt að horfa á málin með opin augun og (Forseti hringir.) varast einhverja sleggjudóma um störf og stefnur einstakra stjórnmálaflokka.