136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

umræða um dagskrármál.

[14:29]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Fyrir hádegishlé fór fram umræða um það hvort forseti Alþingis mundi reyna að leita leiða til að greiða fyrir þingstörfum og leita samkomulags um hvernig við mundum haga dagskránni í dag. Við sjálfstæðismenn höfum komið með tillögur um að 9. mál á dagskrá yrði rætt, heimild til samninga um álver í Helguvík. Okkur finnst mikilvægara að ræða það á þessari stundu frekar en að stjórnarskipunarlögin verði tekin á dagskrá, sem er 5. mál á dagskrá. Skemmst er frá því að segja að á fundi okkar formanna þingflokka núna í hádeginu var því hafnað að málið um Helguvík yrði tekið á dagskrá. Reyndar var því borið við að ekki væri komið nefndarálit í málinu frá hv. þingmönnum Vinstri grænna og var þá boðið upp á að 6. málið, sem er um vaxtabætur, yrði rætt en tekið skal fram, hæstv. forseti, að því var jafnframt hafnað. En ég vil spyrja hæstv. forseta sem er núna á forsetastóli hvort hann muni íhuga að breyta röð á dagskrá.