136. löggjafarþing — 124. fundur,  2. apr. 2009.

umræða um dagskrármál.

[14:31]
Horfa

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég hlýt að harma það að forseti skyldi ekki íhuga að breyta þessari dagskrárröðun. Því liggur fyrir einlægur ásetningur þeirra flokka sem nú eru í ríkisstjórn og þeirra sem styðja ríkisstjórnarflokkana, þ.e. Framsóknarflokksins, að rædd verði stjórnarskrármál en ekki atvinnumál. Það liggur sem sagt fyrir áhugaleysi, m.a. Framsóknarflokksins, á því að hér verði rædd mikilsverð mál sem snúa að því að skapa atvinnu í landinu.

Reyndar tók hv. þm. Grétar Mar Jónsson undir tillögu mína og vil ég þakka honum það að tekið var undir þá tillögu að meira máli skipti að ræða málefni Helguvíkur en að ræða stjórnarskrármál. Hins vegar veit ég ekki hvort hann vill fylgja þeirri skoðun sinni eftir og lýsa henni úr ræðustólnum. En það liggur a.m.k. fyrir að menn vilja frekar ræða stjórnarskrármál en alvarleg atvinnumál.